Njála kom, sá og sigraði

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins tók á móti verðlaununum.
Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins tók á móti verðlaununum. mbl.is/Ófeigur

Njála í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar og sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins kom, sá og sigraði þegar Gríman – íslensku sviðslistaverðlaunin voru veitt í 14. sinn við hátíðlega athöfn á Stóra sviði Þjóðleikhússins nú í kvöld. Njála hafði verið tilnefnd til ellefu verðlauna og hlaut samtals tíu. Frá því Gríman var fyrst veitt 2003 höfðu aðeins þrjár sýningar hlotið sex verðlaun sem var metið þar til í gærkvöldi, en þetta eru sýningarnar Dúkkuheimili árið 2015, Lér konungur 2011 og Utan gátta 2009.

Njála var valin sýning ársins, Mikael Torfason og Þorleifur Örn voru verðlaunaðir fyrir leikrit ársins, Þorleifur Örn var valinn leikstjóri ársins, Brynhildur Guðjónsdóttir var valin leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Njáli og Hjörtur Jóhann Jónsson var valinn leikari ársins í aukahlutverki fyrir túlkun sína á Skarphéðni. Auk þess var Ilmur Stefánsdóttir verðlaunuð fyrir leikmynd ársins, Sunneva Ása Weisshappel fyrir búninga ársins, Björn Bergsteinn Guðmundsson fyrir lýsingu ársins, Árni Heiðar Karlsson og Valdimar Jóhannsson fyrir tónlist ársins og Erna Ómarsdóttir fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins.

Alls skiptu tíu sýningar með sér verðlaununum nítján auk þess sem Stefán Baldursson hlaut heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands fyrir ævistarf sitt í þágu sviðslista á Íslandi.

Hrafnhildur Hagalín og Björn Thors hluti Sprota ársins fyrir heimildaverk sitt Flóð.

Leikari ársins í aðalhlutverki var valinn Hilmir Snær Guðnason fyrir túlkun sína á George í Hver er hræddur við Virginiu Woolf? Leikkona ársins í aukahlutverki var valin Kristín Þóra Haraldsdóttir í Auglýsingu ársins fyrir túlkun sína á Maríu. Söngvari ársins var valinn Elmar Gilbertsson fyrir túlkun sína á Don Ottavio í óperunni Don Giovanni. Dansari ársins var Aðalheiður Halldórsdóttir fyrir Persóna – What a feeling.

Starfað sem leikstjóri í yfir þrjá áratugi

 „Ég gleðst yfir þessum heiðri og er fullur þakklætis,“ segir Stefán Baldursson í samtali við mbl.is. „Þetta er viðurkenning á því að maður hafi verið að gera eitthvert gagn,“ segir Stefán og minnir á að hann hafi í starfi sínu komið víða við. Hann hefur starfað sem leikstjóri í yfir þrjá áratugi og á þeim tíma leikstýrt ríflega 80 leiksýningum bæði hér- og erlendis. Stefán var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur í Iðnó 1980-1987, þjóðleikhússtjóri 1991-2005 og óperustjóri Íslensku óperunnar 2007-2015. „Ég átti afskaplega ánægjulegan tíma á öllum þremur stöðum. Helsti drifkrafturinn í starfinu og það sem eflir mann til dáða í þessum menningarstofnunum er hversu skemmtilegt samstarfið er með skapandi fólki.“

Hér má sjá lista yfir verðlaunahafa kvöldsins:

Heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands

Stefán Baldursson

Sýning ársins

Njála í leikgerð Mikaels Torfasonar og Þorleifs Arnar Arnarsson í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Leikrit ársins

Njála í leikgerð Mikaels Torfasonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Leikstjóri ársins

Þorleifur Örn Arnarsson fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Leikari ársins í aðalhlutverki

Hilmir Snær Guðnason fyrir Hver er hræddur við Virginíu Woolf? í sviðsetningu Borgarleikhússins

Leikkona ársins í aðalhlutverki

Brynhildur Guðjónsdóttir fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Leikari ársins í aukahlutverki

Hjörtur Jóhann Jónsson fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Leikkona ársins í aukahlutverki

Kristín Þóra Haraldsdóttir fyrir Auglýsingu ársins í sviðsetningu Borgarleikhússins

Leikmynd ársins

Ilmur Stefánsdóttir fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Búningar ársins

Sunneva Ása Weisshappel fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Lýsing ársins

Björn Bergsteinn Guðmundsson fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Tónlist ársins

Árni Heiðar Karlsson og Valdimar Jóhannsson fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Hljóðmynd ársins

Valdimar Jóhannsson og Baldvin Þór Magnússon fyrir Kafla 2: Og himinninn kristallast í sviðsetningu Íslenska dansflokksins

Söngvari ársins

Elmar Gilbertsson fyrir Don Giovanni í sviðsetningu Íslensku óperunnar

Dans – og sviðshreyfingar ársins

Erna Ómarsdóttir fyrir Njálu í sviðsetningu Borgarleikhússins og Íslenska dansflokksins

Dansari ársins

Aðalheiður Halldórsdóttir fyrir Persóna – What a feeling í sviðsetningu Íslenska dansflokksins

Danshöfundur ársins

Inga Huld Hákonardóttir og Rósa Ómarsdóttir fyrir The Valley í sviðsetningu Menningarfélagsins Tvíeindar, Reykjavik Dance Festival og Tjarnarbíós

Útvarpsverk ársins

Fylgsnið eftir Hávar Sigurjónsson í leikstjórn Hilmars Jónssonar. Framleiðandi Útvarpsleikhúsið á RÚV

Sproti ársins

Hrafnhildur Hagalín og Björn Thors fyrir Flóð í sviðsetningu Borgarleikhússins

Barnasýning ársins

Vera og vatnið eftir Tinnu Grétarsdóttur, Snædísi Lilju Ingadóttur, Guðnýju Hrund Sigurðardóttur og Sólrúnu Sumarliðadóttur í sviðsetningu Bíbí og blaka

Stefán Baldursson hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands
Stefán Baldursson hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands mbl.is/Ófeigur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka