Fer beint úr fluginu á hjólið

Skúli Mogensen, forstjóri WOW, tekur þátt í WOW Cyclothon í …
Skúli Mogensen, forstjóri WOW, tekur þátt í WOW Cyclothon í tíu manna liði. mbl.is/Rax

„Það eru um 1.200 búnir að skrá sig sem er ótrúlegt því það héldu allir að við værum snarbilaðir þegar við hófum þetta ævintýri. Það hafði enginn trú á því að nokkur maður myndi nenna að hjóla með okkur hringinn í kringum landið,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, um hjólreiðakeppnina WOW Cyclothon sem hefst í dag.

Kepp­end­ur í einstaklingskeppni mótsins, sem eru sjö talsins, leggja af stað klukk­an 17 frá Eg­ils­höll. Hjóla þeir hring­inn í kring­um Ísland, um Hval­fjörð og yfir Öxi á inn­an við 84 tím­um. Fimmtán lið á vegum Hjólakrafts leggja af stað klukkustund síðar, eða klukkan 18. Á morgun leggja svo liðin af stað um sömu leið en metþátt­taka er í ár og hafa tæp­lega 1.200 þátt­tak­end­ur í 123 liðum skráð sig til leiks.  

„Þetta eykur bara stemmninguna“

Skúli lætur sig ekki vanta á mótið og mun hann taka þátt með tíu manna liði WOW air. Hann segir sinn persónulega undirbúning hins vegar oft hafa verið betri, þar sem hann hafi verið að fylgja úr hlaði jómfrúarflugum WOW air til Bandaríkjanna síðustu daga. Fór hann utan með fyrsta flugi flugfélagsins til San Francisco í síðustu viku og kemur til baka með fyrsta fluginu frá Los Angeles á morgun. „Ég fer bókstaflega beint úr vélinni á hjólið svo það verður eitthvað skrautlegt, en gaman,“ segir hann.

Spurður hvort hann muni reyna að sofa í vélinni og undirbúa sig þannig síðustu tímana fyrir mót svarar Skúli að það sé ekki ólíklegt. „Þetta eykur bara stemmninguna fyrir mig,“ segir hann og hlær.

Verður þetta í fyrsta sinn sem Skúli keppir með blönduðu liði, en sjö karlar eru í liðinu og þrjár konur. „Ég hef verið tvisvar sinnum í fjögurra manna liði og tvisvar sinnum í tíu manna liði en er nú í fyrsta sinn í blönduðu tíu manna liði. Það verður mjög gaman að deila táfýlunni með hinu kyninu líka,“ segir hann kíminn.

Frá WOW Cyclothon 2015.
Frá WOW Cyclothon 2015. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orðspor keppninnar að breiðast út

„Það er frábær stemmning og það er magnað að sjá að við erum aftur að slá nýtt met hvað varðar fjölda,“ segir Skúli og bætir við að æ fleiri hafi áttað sig á því að það er gerlegt að hjóla hringinn í kringum landið. Þá segir hann það mikinn heiður að fá fræga erlenda hjólreiðamenn eins og George Hincapie til landsins, en hann hefur tekið sautján sinnum þátt í Tour de France og m.a. verið í liði með Lance Armstrong.

„Það er alveg frábært og til marks um að orðspor keppninnar er að breiðast út, enda hefur hún fengið frábæra umfjöllun erlendis fyrir að vera einstök í heiminum,“ segir Skúli og heldur áfram: „Það er náttúrulega svolítið sérstakt að hjóla hringinn í kringum heilt land þar sem þú ert með jökla á hægri hönd og Atlantshafið á vinstri hönd í miðnætursólinni, einn með sjálfum þér.“

Þá segist hann vænta þess að sjá verulega aukningu af erlendum keppendum þegar fram líða stundir, þar sem keppnin sé einstök á heimsvísu. „Svo er líka mjög gaman að sjá hvað það er að fjölga í einstaklingskeppninni. Það náttúrulega þvílíkt afreksfólk að klára það yfir höfuð á tilsettum tíma,“ bætir hann við.

Frábært að geta látið gott af sér leiða

Áheita­söfn­un WOW Cyclot­hon stendur yfir, en í ár er safnað fyr­ir sam­tök­in Hjólakraft. Söfn­un­in stend­ur yfir alla keppn­ina og mun ljúka 18. júní næst­kom­andi. Sam­tök­in Hjólakraft­ur voru stofnuð af Þor­valdi Daní­els­syni til að hjálpa börn­um og ung­ling­um sem höfðu á einn eða ann­an hátt orðið und­ir í bar­átt­unni við lífs­stíls­sjúk­dóma og ekki fundið sig í hópíþrótt­um.

„Valdi er að vinna algjört kraftaverk með krakka og unglinga, sem hafa náð lygilegum árangri á síðustu árum. Það er frábært að keppendur geti látið gott af sér leiða með því að styrja þessi samtök,“ segir Skúli.

Að lokum segir hann að góð stemmning sé í hópnum og mikil spenna fyrir keppninni. „Við erum rosalega spennt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert