Fínasta júníblíða

mbl.is/Sigurður Sigmundsson

Austlæg eða breytileg átt verður á landinu í dag, 3–8 metrar á sekúndu, en sólin sem lofað var í veðurspá gærdagsins hefur ekki enn látið sjá sig suðvestalands. Að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á vakt á Veðurstofu Íslands, er þetta létt skýjahula suðvestan- og sunnanlands sem mun leysast upp er líður á morguninn og verður sólríkara er líður nær hádegi.

veðurvefur mbl.is

„Það er bjart víða á landinu,“ segir Haraldur og kveður þó meira kunna að fara fyrir skýjunum á  Austurlandi, þar sem vera kann að stöku skúr muni falla.

Líkt og í gær verður hlýjast í uppsveitum á suðvesturlandi og getur hiti þar farið upp í 17–18 gráður. „Þetta verður fínasta júníblíða,“ segir Haraldur og bætir við að hafgola muni þó koma inn nokkuð víða.

Útlit er fyrir svipað veður á morgun en þó má gera ráð fyrir síðdegisskúrum inn til landsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert