Keyrt er á tvö til þrjú lömb á dag í umdæmi lögreglunnar á Ísafirði þessa dagana. Töluvert er um að ökumenn meti aðstæður ekki rétt og hægi ekki nóg á sér þar sem kindur eru á ferð, að sögn lögreglunnar á Ísafirði, sem hvetur ökumenn til að hafa í huga að lömbin eru gjörn á að hlaupa yfir vegi á þessum árstíma.
Þá sé því miður einnig of mikið um að ökumenn tilkynni ekki þegar þeir hafa ekið á sauðfé. Þó að flestir bændur séu tryggðir gegn slíkum óhöppum, þá verði að hafa í hugfast þær kvalir sem dýrið kann að líða.
Einnig hefur verið nokkuð um hraðakstur í umdæmi Ísafjarðarlögreglunnar og var sá sem hraðast ók tekinn á 132 km hraða á 90 km kafla í gærkvöldi. Fær hann „glaðning í sektarformi“, að sögn lögreglunnar.