Ný útlendingalöggjöf „ágæt millileið"

Á undanförnum misserum hafa mótmælendur komið saman fyrir utan Útlendingastofnun …
Á undanförnum misserum hafa mótmælendur komið saman fyrir utan Útlendingastofnun og mótmælt útlendingalöggjöf og vinnulagi í málefnum útlendinga. mbl/ Eggert Jóhannesson

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, gerði í dag grein fyrir innihaldi nýrra laga um útlendinga og kynnti markmið þeirra og framvindu við vinnslu frumvarpsins. Þetta var kynnt á fundinum „Mannúð, lög og fjölmenning," sem er sá fimmti í fundaröð Háskóla Íslands sem ber yfirskriftina Fræði og fjölmenning.

Unnur segir eldri lög um útlendinga frekar hafa snúist um eftirlit með útlendingum en úrræði á mannúðlegum forsendum og séu nýju lögin tilraun til úrbóta að því leyti. Lögin séu tvíþætt, annars vegar um kerfi er varðar þá sem sækja um alþjóðlega vernd og hins vegar um réttindi og aðkomu þeirra sem hingað koma á öðrum forsendum.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Eggert Jóhannesson

Hún segir mikla umræðu hafa átt sér stað um málefni útlendinga og að svo muni vera áfram. Skipuð var þverpólitísk nefnd um málið en hana skipuðu fulltrúar allra flokka á þingi og fór Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, fyrir nefndinni.

Það voru sjónarmið nefndarinnar að nýju lögin skyldu fela í sér mannúðlega nálgun og betri nýtingu fjármagns, það skili sér í bættum hag bæði fyrir fólk sem hingað kemur og fyrir ríkissjóð. Markmið laganna sé meðal annars að einfalda og stytta ferla er varða umsóknir hælisleitenda og annarra innflytjenda og skýra betur ákvæði laganna og hlutverk stjórnvalda.

Skref í rétta átt

Hluti af einföldun ferla er að samræma störf hlutaðeigandi aðila með stofnun sérstakrar móttökumiðstöðvar auk þess sem öll málefni útlendinga munu fara í gegnum Útlendingastofnun og allir úrskurðir fari fyrir kærunefnd útlendingamála. Meðal annarra nýmæla í lögunum er að flokkum hafi verið breytt, aukin áhersla er lögð á atvinnulífið, reglur rýmkaðar hvað varðar fólk sem hingað er þegar komið og réttarstaða fylgdarlausra barna betur tryggð auk nýs ákvæðis um réttarbætur fyrir ríkisfangslausa.

Unnur Brá vísar því á bug að frumvarpið hafi verið keyrt í gegnum þingið með offorsi, lögin hafi verið vel ígrunduð og samráð haft við viðeigandi aðila. Ekki hafi þó verið hægt að mæta sjónarmiðum allra, lögin séu þó til bóta í samanburði við eldri lög og eru lögin samkvæmt Unni, ágæt millileið. Þá ítrekar hún að mikilvægt sé að lög sem þessi séu í sífelldri endurskoðun.

Þarf að gera betur

Arndís A. K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, fjallaði á fundinum um sýn Rauða krossins á nýju lögin en félagið skilaði inn ýtarlegri umsögn við frumvarpið. Segir Arndís Rauða krossinn hafa átt gott samstarf við innanríkisráðuneytið og hrósar stjórnvöldum fyrir að ráðast í verkið. Þá telur hún að þó margt sé gott við nýju lögin, valdi sum ákvæði þeirra nokkrum áhyggjum.

Claudie Ashonie Wilson, lögfræðingur hjá lögmannstofunni Rétti, hélt einnig tölu á fundinum og tekur hún í sama streng og Arndís. Þær lýsa báðar yfir ánægju sinni með það sem vel er gert í lögunum, þau séu skref í rétta átt en á sama tíma mætti margt fara betur.

Meðal þess sem þær Arndís og Claudie setja út á er notkun lista yfir örugg ríki í heiminum við málsmeðferð. Fólk frá löndum sem ekki tilheyra þessum lista hljóti ekki sömu málsmeðferð og fólk frá ríkjum er listanum tilheyra samkvæmt lögunum. Þær telja réttara að heildarúttekt fari fram í einstökum málum, óháð þjóðerni, og að ekki séu forsendur fyrir slíkum lista.

Samkvæmt nýju lögunum fer Útlendingastofnun með öll málefni útlendinga á …
Samkvæmt nýju lögunum fer Útlendingastofnun með öll málefni útlendinga á Íslandi. mbl/ Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert