Í maímánuði sóttu 56 einstaklingar frá 17 löndum um vernd á Íslandi. Heildarfjöldi umsækjenda á fyrstu fimm mánuðum ársins er þar með orðinn 235 en á sama tímabili í fyrra sóttu 64 um vernd.
Flestir umsækjendur í maí komu frá Albaníu (24) og Makedóníu (9) en alls kom 61% umsækjenda frá löndum Balkanskagans. 66% umsækjenda mánaðarins voru karlkyns og 77% fullorðnir. Nánari upplýsingar um þjóðerni, aldur og kyn umsækjenda má sjá á vef Útlendingastofnunar.
Niðurstaða fékkst í 75 mál í maímánuði. Fjörutíu og fjögur mál voru tekin til efnislegrar meðferðar, 18 mál voru afgreidd með endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, fjórir umsækjendur höfðu þegar fengið vernd annars staðar og níu umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.
Af þeim 44 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk níu málum með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum og 35 málum lauk með synjun. Fjórtán efnismál voru afgreidd á grundvelli forgangsmeðferðar.
Umsækjendur sem fengu vernd í mánuðinum komu frá Írak, Íran, Sýrlandi og Úkraínu en flestir umsækjenda sem fengu synjun komu frá Albaníu, Makedóníu, Serbíu og Bandaríkjunum. Nánari upplýsingar um lyktir mála eftir þjóðerni má sjá á vef Útlendingastofnunar.