Ný útlendingalöggjöf ekki gallalaus

Bátur hlaðinn flóttamönnum á Miðjarðarhafinu.
Bátur hlaðinn flóttamönnum á Miðjarðarhafinu. AFP

Þó ýmislegt í frumvarpi um ný útlendingalög sé til bóta þá hefur Rauði krossinn áhyggjur af því að sumar þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpinu „marki ekki leiðina að þessum tilvísuðu markmiðum um skilvirkni í réttaröryggi, og geti tilteknar breytingar þvert á móti haft neikvæð áhrif á bæði skilvirkni og málshraða auk þess að skerða réttaröryggi umsækjenda um hæli.“ Þetta segir Arndís A. K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, á fundi um málið sem fram fór í Háskóla Íslands í gær.

Frétt mbl.is: Ný útlendingalöggjöf „ágæt millileið"

Meðal þess sem Arndís gagrýnir eru heimildir í lögunum, veittar formanni kærunefndar, til þess að úrskurða einn í tilteknum málum er varða alþjóðlega vernd. Þar að auki hafi nýlegar breytingar orðið til þess að skerða aðgang umsækjenda um alþjóðlega vernd að dómstólum.

Þá telur Arndís miður að numið hafi verið á brott ákvæði sem veitir kærendum í málum er varða alþjóðlega vernd, rétt til að koma fyrir kærunefnd útlendingamála og gera grein fyrir afstöðu sinni, áður en úrskurðað er í máli þeirra. Það skipti máli að einstaklingar geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri.

Þá hafi tillaga Rauða krossins, um að í lögunum væri heimild fyrir því að veita vegabréfsáritun til einstaklings sem óskar eftir að koma til landsins og njóta alþjóðlegrar verndar, ekki ratað inn í lögin. Í því sé fólgin ákveðin mótsögn að samkvæmt lögunum eigi fólk rétt á því að sækja um vernd en megi í raun ekki koma og sækja hana.

Loks þykir ámælisvert að í lögunum er víða vísað til lista yfir svokölluð örugg ríki sem eru útbúnir af stjórnvöldum. Þessir listar séu til þess fallnir að koma í veg fyrir að umsóknir um hæli hljóti sömu skoðun og telur Rauði krossinn þessa lista í eðli sínu skerða réttaröryggi fólks á flótta. Þá mælist Rauði krossinn til þess, að sé neikvæður úrskurður Útlendingastofnunar kærður, þá skuli kæran fresta framkvæmd ákvörðunarinnar.

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl/ Kristinn Ingvarsson

Claudie Ashonie Wilson, lögfræðingur hjá lögmannstofunni Rétti sem einnig hélt tölu á fundinum, tók undir með Arndísi og var samþykk athugasemdum Rauða krossins. Þá bætti hún við að í lögunum sé ekki tekið tillit til stöðu fylgdarlausra barna sem verða fullorðin á meðan málsmeðferð þeirra stendur yfir.

Þrátt fyrir þessar athugasemdri fagna þær jákvæðum breytingum sem lögin hafa í för með sér. Skrýrari ákvæði um heimildir stjórnvalda, auknir möguleikar á fjölskyldusamningum fyrir fylgdarlaus börn, ákvæði um tryggt réttaröryggi, umbætur í skilgreiningarákvæðum, bætt réttarstaða ríkisfangslausra, refsileysi vegna ólöglegrar komu og skýrari réttindi um alþjóðlega vernd, telja þær til að mynda vera ljósa punkta frumvarpsins. 

Rauði krossinn hafði skilað ýtarlegri umsögn við frumvarp til nýrra útlendingalaga áður en þau voru samþykkt fyrr í þessum mánuði. Rauði krossin og innanríkisráðuneytið gerðu með sér samning árið 2014 um að Rauði krossinn veiti umfangsmikla þjónustu við hælisleitendur og annist talsmannaþjónustu við hælisleitendur á stjórnsýslustigi. Arndís segir félagið hafa átt gott samstarf við stjórnvöld og segir margar athugasemdir þeirra hafa verið teknar til greina.

Á fundinum í Háskóla Íslands í gær kynnti Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, efni frumvarpsins auk þess sem velferðar- og innanríkisráðuneyti undirrituðu samning við Háskóla Íslands um úttekt á því hvernig flóttafólki og innflytjendum vegnar í íslensku samfélagi.

Frétt mbl.is: Hvernig vegnar innflytjendum á Íslandi?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert