„Þetta kemur mér ekkert á óvart því það eru svo mörg atriði í þessu máli sem voru aldrei rannsökuð og það var ekki hægt að fá rannsóknarmenn til að hlusta,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar, vegna frétta dagsins af nýjum skýrslutökum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
„Það er margt í skjölunum og ég tel víst að endurupptökunefndin hafi áttað sig á því og sé að rannsaka þessa þræði sem gætu leitt til annarrar niðurstöðu.“
„Talsmenn endurupptökubeiðenda hafa bent nefndinni á ýmislegt sem þyrfti að kanna, en í sjálfu sér ætti það að vera öfugt. Við eigum ekki að sanna sakleysi heldur á endurupptökunefndin að meta hvort nægar ástæður séu fyrir endurupptöku. Ef hún telur að svo sé, þá fer málið fyrir Hæstarétt og hann dæmir um hvort þetta fólk sé sekt eða saklaust af þessari morðákæru,“ segir Ragnar.
Hann býst við því að fá afhent gögn um skýrslutökur gærdagsins á næstunni.
Lúðvík Bergvinsson, lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar og afkomenda Sævars Ciesielski, tekur í svipaðan streng.
„Í fljótu bragði þá hefur þetta [skýrslutaka gærdagsins] engin önnur áhrif en það að ríkissaksóknari er enn þá að rannsaka málið. Það bendir til þess að það sé að minnsta kosti einhver vafi um að rétt niðurstaða hafi fengist á sínum tíma. Það liggur dálítið í augum uppi.
„Það liggur fyrir að það hefur farið fram gríðarleg vinna og skoðun á eldri gögnum sem liggja fyrir. Sú vinna hefur staðið yfir í nær tvö ár af hálfu endurupptökunefndar og lögmönnum endurupptökubeiðenda. Það hefur ýmislegt komið í ljós sem menn hafa viljað skoða frekar,“ segir Lúðvík.
„Nefndin vinnur alveg sjálfstætt en hún hefur þó tryggt okkur aðgengi að öllum gögnum og við höfum rætt við nefndina um stöðu mála. En nefndin vinnur sjálfstætt og mun leggja fram sjálfstæða niðurstöðu. En þangað til tölum við saman og leggjum fram okkar sjónarmið og reynum að rökstyðja þau,“ segir Lúðvík.