Rifjaði upp sögu fyrri flóttamanna

Svana Helen Björnsdóttir, fjallkonan í ár.
Svana Helen Björnsdóttir, fjallkonan í ár. mbl.is/Þórður

„Við lifum á tímum þar sem stríðsástand ríkir í nærliggjandi löndum Evrópu og litið er á flóttamenn sem vandamál. Við höfum upplifað hræðslu við flóttamenn og fólk frá öðrum menningarheimum. Því ákvað ég að flytja ljóð og minnast þeirra einstaklinga sem hafa flust til Íslands, samlagast þjóðinni og orðið Íslendingar,“ segir Svana Helen Björnsdóttir, fjallkonan á Seltjarnarnesi í ár.

Hún flutti í Bakkagarði á Seltjarnarnesi fyrr í dag fallegt ljóð eftir dr. Melitta Urbanic, sem kom hingað til lands árið 1938 á flótta ásamt eiginmanni sínum, Victor Urbanic, og börnum þeirra. Melitta, sem var austurrísk og af gyðingaættum, flúði nasista og settist að hér á landi.

Þau hjónin voru hámenntuð en hún hafði doktorspróf sem var óvenjulegt fyrir konur á þeim tíma. Hún var um margt merkileg, tónlistarkona og bókmenntafræðingur, mikill náttúruunnandi og kenndi Íslendingum meðal annars að halda býflugur, að sögn Svönu.

Ljóðabók Melittu, Frá hjara veraldar eða Vom Rand der Welt eins og hún heitir á frummálinu, kom út 2014 í tvímála útgáfu bæði á íslensku og þýsku. Svana heyrði fyrst af Melittu þegar hún las bókina.

„Ég hafði aldrei heyrt um þessa konu fyrr en ég rakst á þessa bók, þar er að finna æviágrip hennar og ljóð eftir hana en hún var mjög gott ljóðskáld. Hún orti á móðurmáli sínu þýsku um Ísland og þær stríðu tilfinningar sem fylgja því að vera rifinn upp með rótum. Í ljóðunum má finna þessa baráttu og sjá hvernig hún sættist við nýja heimalandið og varð hamingjusöm hér,“ segir Svana.

Ljóðið sem Svana flutti heitir Hér og er eftir Melittu Urbanic: 

Hér

Loks fyrsti sanni sumardagurinn !

Með sælum morgunljóma yfir högum

hófst hann – í björtum, daggarofnum drögum

dagsins og reis, hvar stirndi á morguninn. 

 

Við silfurslunginn, bláan bunulæk,

buslar með unga sjö, við grá steina,

um bakkasefið græna og milli greina

grashagans, villiöndin morgunspræk.

 

Eins glitrar hvert í beði okkar blað!

hér brum og safi vakna í ferskum æðum.

Hvert amboð, hert og heimt úr funans glæðum,

af hagleik beitt, hvar sólin skín á það.

 

Við hennar yl við eigum hvíldardag,

tvö ein í friði og njótum löngu gleymdrar

ljósfylli er yljar yndislega, og dreymdrar

alúðar flugna er suða dagsins lag.

 

Ei hver við erum – hvar? – við spyrjum meir,

hér hefur jörðin okkur bústað fundið;

frjáls gola í vitum öllum ama hrundið,

og okkur bjargað sól og sumarþeyr.

Frá hátíðarhöldunum á Seltjarnarnesi.
Frá hátíðarhöldunum á Seltjarnarnesi. mbl.is/Þórður
mbl.is/Þórður
mbl.is/Þórður
Fjölmennt var í skrúðgöngunni á Seltjarnarnesi í dag.
Fjölmennt var í skrúðgöngunni á Seltjarnarnesi í dag. mbl.is/Þórður
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert