Skyldug til að skila góðu búi

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra flutti hátíðarræðu.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra flutti hátíðarræðu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Sú kynslóð sem stóð í stafni árið 1900 hafði aðrar væntingar og vonir en aldamótakynslóðin árið 2000. En vinna og þrautseigja hinnar fyrri lagði grunninn að því samfélagi sem við lifum í. Hún skilaði af sér góðu búi og það er sú skylda sem hvílir á okkur öllum, sama hvaða tíma við lifum, að skila af okkur góðu búi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.  forsætisráðherra í hátíðarræðu sinni á Austurvelli í morgun í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga. 

Sigurður Ingi fjallaði meðal annars um efnahagshrunið í ræðu sinni. 

„Upp úr síðustu aldamótum fór hér allt að ganga vel, jafnvel svo að undrum sætti. Gengu þá margir heldur rösklegar um gleðinnar dyr en hollt gat talist. Því fór sem fór og margir efuðust um að Íslendingar gætu verið þjóð meðal þjóða, svo beygð sem hún var. Fáir munu halda því fram í dag að framtíðin sé dökk. Nú er sannarlega lag að bæta kjör allra og færa til betri vegar ýmislegt sem miður fór,“ sagði hann. 

Þá fjallaði forsætisráðherra einnig um auðlindirnar. 

„Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð eigum við að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.

Fólk gerir ekki kröfu um að allir séu jafnsettir, en fólk hefur ekki þol fyrir óréttlátri skiptingu þar sem sumir fá að njóta á meðan aðrir gera það ekki. Sérstaklega á þetta við þegar tilfinning fólks er sú að sumir fái fleiri og betri tækifæri en aðrir. En gleymum því ekki heldur að hver er sinnar gæfu smiður,“ sagði Sigurður Ingi. 

Þrotlaus vinna og strit forfeðranna var honum einnig ofarlega í huga: 

„Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust og strituðu í sveita síns andlitis við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd. Næst því komumst við með því að rækja þá skyldu okkar að skila því ekki verr, og helst nokkru bættara, til komandi kynslóða, og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru.

Þannig getum við tryggt að Ísland verði ætíð áfram heimili þeirra og samastaður í síbreytilegri veröld, hvert sem lífið kann að leiða þau að öðru leyti. Þannig getum við í sameiningu haldið á lofti vinnu og draumum feðra okkar og mæðra.“

Að lokum minnist forsætisráðherra á afrek íþróttafólksins að undanförnu. 

„Af ýmsu er að taka þegar tækifæri gefst til þess að ávarpa þjóðina 17. júní, svo margs sem vert væri að geta. Vart verður hjá því komist að minnast á glæsilegan árangur íþróttafólksins okkar sem hefur staðið sig frábærlega að undanförnu. Má þar nefna knattspyrnulandsliðin okkar í fremstu röð í Evrópu, sundmenn á verðlaunapalli, frjálsíþróttafólk að setja met og svo handboltalandsliðin okkar.

Það yljar óneitanlega um hjartarætur þegar fulltrúar okkar ná svo langt á alþjóðlegum vettvangi. Það er sannarlega eitt mesta stolt lítillar þjóðar að eiga svo margt íþróttafólk og listamenn og vísindamenn í fremstu röð í heiminum.

Á þjóðhátíðardaginn eigum við leyfa okkur að rækta það stolt, gleðjast yfir afrekum landa okkar og því góða sem landið og samfélagið hafa gefið okkur. Betri hvatningu fyrir litla þjóð sem við ysta haf unir við hátign jökla og bláan sæ, hvatningu til að vinna að enn betri árangri á grunni þess sem þegar er unnið, er vart hægt að hugsa sér,“ sagði hann að lokum. 

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Frá Austurvelli í morgun.
Frá Austurvelli í morgun. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert