Ungverskir stuðningsmenn slógust við lögreglu á Stade Vélodrome í Marseille þar sem leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan fjögur. AFP-fréttaveitan greinir frá því að ungverskir stuðningsmenn hafi reynt að klifra yfir girðingu á vellinum þegar öryggisverðir á vellinum stöðvuðu þá. Ungverjarnir ætluðu að slást í hópinn með öðrum Ungverjum á vellinum.
Þegar öryggisverðirnir stigu inn í hófust slagsmál í stúkunni og þurfti óeirðarlögregla að skerast í leikinn. Af myndum AFP að dæma virðist að minnsta kosti einn stuðningsmaður Ungverja hafa fallið úr stúkunni á flótta undan slagsmálunum og var piparúða beitt á stuðningsmennina.
#HUN are sprayed with pepper spray before #ICEHUN ...https://t.co/MppnXrObQp pic.twitter.com/oToRjTB2gr
— Match of the Day (@BBCMOTD) June 18, 2016
Hörður Snævar Jónsson, fréttaritari 433.is, segir allt vera vitlaust á vellinum hjá Ungverjum. „Stuðningsmenn Ungverja hafa verið að slást innbyrðis og gríðarleg læti eru á svæðinu,“ skrifar Hörður. „Hávær hvellur heyrðist en ekki var um sprengju að ræða.“
Að sögn fréttaritara mbl á svæðinu er öll óeirðalögreglan fyrir framan ungversku áhorfendurna og starfsmenn vallarins í þéttri röð fyrir framan. Ekkert svoleiðis er fyrir framan þá íslensku.