Icelandair leitaði á nýjar slóðir á dögunum þegar í skoskum fjölmiðlum birtist auglýsing félagsins sem beinist að Skotum, nánar tiltekið Tartan Army, áhangendum skoska landsliðsins í knattspyrnu.
Í auglýsingunni er óskað eftir því að Skotarnir styðji hið íslenska landslið og geri sér ferð til Frakklands með Icelandair, til að styðja liðið enda hafi Skotar sjálfir ekki komist upp úr undankeppninni.
Vísað er til ýmissa líkinda milli þjóðanna tveggja, bæði lið spili í bláum og hvítum búningum, hái harðar rimmur á vellinum og spili með hjartanu. Einnig er tekið fram að fyrsta alþjóðaflug Icelandair hafi „að sjálfsögðu“ verið til Skotlands.
Auglýsingunni fylgir liðsmynd landsliðsins við brottförina til Frakklands, þar sem því var stillt upp í stiga upp í flugvél Icelandair.