Erfitt að vera ástfanginn forseti

Ólafur Ragnar Grímsson var í opinskáu viðtali á Sprengisandi í …
Ólafur Ragnar Grímsson var í opinskáu viðtali á Sprengisandi í dag. mbl.is/Golli

„Kannski hefði það verið skynsamlegt að taka sér 3–4 mánaða frí en það hvarflaði ekki að mér. Ég dvaldist hjá henni í Seattle þangað til hún dó. Ef ég hefði tekið hálft ár í frí eftir það, hefði kannski verið heilt ár sem ég sinnti ekki embættinu,“ sagði forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson um tímann eftir að þáverandi eiginkona hans, Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, lést árið 1998, í útvarpsþættinum Sprengisandur á Bylgjunni.

Hann segir að erfitt hafi verið að rekja skyldur forseta á þessum tíma. 

„Hvort sem það var rétt eða ekki, þá héldum við áfram. Ég fór í opinbera heimsókn til Svíþjóðar og svo til Ítalíu með Tinnu [dóttir Ólafs] og heimsótti byggðarlög. Það var erfitt að vera í þeim einn. Ég sagði við dætur mínar eftir þær ferðir sem ég fór einn, að það hafi verið eins og að vera ballettdansari sem er með sama félagann í öllum sýningum. En nú, þegar tónlistin var sú sama, var ég einn,“ sagði Ólafur.

Hann segir svo að það hafi heldur ekki verið auðvelt að vera ástfanginn forseti eftir að hann kynntist Dorrit.

„Ástfanginn af manni sem var enn í sorg“

„Það hvarflaði ekki að mér þá að hætta. En auðvitað velti ég því fyrir mér þá hvort ég ætti að gefa kost á mér árið 2000. Svo kynntist ég Dorrit árið 1999 og hún færði mér mikinn styrk. Hún kom úr allt öðru umhverfi. Það var ákveðin huggun og endurnæring í því að kynnast hennar heimi og veröld. Hún kemur úr öðrum menningarheimi og heimshluta.“

„Hún gerði sér grein fyrir því að hún varð ástfangin af manni sem var enn í sorg. Auðvitað var það ekki auðvelt fyrir Dorrit að takast á við það. Um leið og ég varð ástfanginn af henni þá var ég enn í sorg. Og þurfti að hugsa hvernig maður tekst á við það. Hún tókst á við það með þroska og skilningi.“

„Það var mikið spurt hví við giftumst ekki. Það var mikil pressa á Dorrit um að hún tæki við sem formleg forsetafrú. Hún var fullþroskuð kona með eigið heimili og fjölskyldu. Vinir hennar tóku mér vel og hafa gefið mér meiri vídd sem ég hafði ekki áður, alþjóðlega vídd,“ sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur segir orðatiltækið um að tíminn lækni öll sár ekki vera rétt. „Tíminn læknar ekki öll sár. Það tók okkur Dorrit nokkur ár að finna á okkur að við gætum búið til sameiginlega veröld.“

„Að vera ástfanginn forseti er kannski það flóknasta af þessu öllu saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert