Fjórða og síðasta degi Bíladaga á Akureyri lauk í gærkvöldi með reykspólun og flugeldasýningu. Að minnsta kosti formlegri dagskrá hátíðarinnar en einhverjir ökuþórar tóku sig til og héldu vöku fyrir bæjarbúum með spóli og tilheyrandi látum aðfaranótt sunnudags.
Svanberg Snorrason, íbúi á Akureyri, vakti athygli á ónæðinu á Facebook-síðu sinni eftir að sjö bílar spóluðu hring eftir hring á hringtorgi skammt frá heimili hans.
„Ég hef ekkert á móti hátíðinni sem slíkri en þetta er leiðinlegur fylgifiskur hennar,” segir Svanberg í samtali við mbl.is en tekur það fram að með færslunni sé hann síður en svo að fella áfellisdóm yfir skipuleggjendum hátíðarinnar eða hátíðarinnar sem slíkrar. „Þetta eru eflaust bara nokkrir sem koma óorði á heildina,” segir hann.
Frétt mbl.is: Götuspyrna og reykspólun á morgun
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íbúar kvarta undan hávaða vegna ökutækja hátíðargesta en að sögn Svanbergs er það misjafnt á milli ára hversu mikið ónæði stafar af gestum hátíðarinnar. „Maður tekur mismikið eftir þessu en þarna voru sjö bílar í einu. Ég hef ekki séð annað eins áður,” segir hann og bætir við að fjórir bílar hafi skransað hringinn í kringum torgið nokkrum mínútum fyrr.
Forsvarsmenn Bíladaga hafa á undanförnum árum reynt að stemma stigu við spóli innanbæjar og öðru eins ónæði og segi og er það vel að sögn Svanbergs. „Það hlýtur að vera hagur allra. Ég tek fagnandi á móti hátíðinni ef þessi fylgifiskur hverfur. Megi þeir vera hérna sem flestir ef íbúarnir fá svefnfrið.”
Einar Gunnlaugsson, formaður Bílaklúbbs Akureyrar (BA), segir hátíðina hafa gengið vel í alla staði í ár en alltaf séu „einhverjir svartir sauðir í mörgu fé sem skemma fyrir“.
Í aðdraganda hátíðarinnar deildu BA og lögreglustjórinn á Norðurlandi um það hvort skilgreina ætti Bíladaga sem útihátíð en BA var gert að greiða stórar fjárhæðir fyrir löggæslu vegna skilgreiningar lögreglustjórans á hátíðinni. BA segja Bíladaga aftur á móti vera íþróttamót og ekkert skemmtanahald fari þar fram.
Einar segir að þar sem Bíladagar hafi verið flokkaðir sem útihátíð hafi þeim verið úthlutað leyfi frá lögreglustjóranum en skv. leyfinu var skemmtanahald ekki leyft lengur en til klukkan 23. „Því sáum við okkur ekki fært að hafa spólsvæðin opin lengur en til 23,“ segir Einar. Spólsvæðin voru því lokuð fyrstu tvær næturnar og var því spólað innanbæjar „meira en góðu hófi gegnir,“ segir Einar en honum þykir það mjög leitt.
Þegar samkomulag náðist á milli BA og lögreglustjórans var spólsvæðið opið á nóttinni og segir Einar innanbæjarspól hafa snarminnkað við það. „Spólsvæðið tengist ekki dagskrá Bíladaga. Þetta er þjónusta við gesti Bíladaga og bæjarbúa. Við höfum gert þetta árlega með betri og betri árangri með hverju árinu,“ segir Einar.
Hann er mjög stoltur af því að ekkert slys hafi komið upp sem rekja mætti til Bíladaga, hvorki á keppnisbrautum né á þjóðvegum. „Að hátíðin hafi farið slysalaust fram er eitt og sér stórt afrek. Þessir ökumenn kunna sig í umferðinni þó þeir aki geyst á brautinni hjá okkur,“ segir Einar.