Fyrrverandi flugstjóra Icelandair dæmdar 70 milljóna kr. bætur

Icelandair var gert að greiða dánarbúi fyrrverandi flugstjóra félagsins tæplega …
Icelandair var gert að greiða dánarbúi fyrrverandi flugstjóra félagsins tæplega 70 milljónir króna. mbl/ Júlíus Sigurjónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Icelandair til þess að greiða dánarbúi fyrrverandi flugstjóra flugfélagsins tæplega 70 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Dómurinn féll sl. fimmtudag.

Flugstjóranum var fyrirvaralaust sagt upp störfum hjá flugfélaginu eftir að hafa látið illa í flugi á heimleið til Íslands frá Danmörku eftir fraktverkefni á vegum Icelandair árið 2010. Hann var 59 ára þegar honum var sagt upp og hafði hann þá starfað hjá Icelandair í 26 ár, þar af helming starfstímans sem flugstjóri.

Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is

Ástæða uppsagnarinnar var, líkt og segir að framan, ósæmileg hegðun í flugi á heimleið úr fraktverkefni. Icelandair bar fyrir sig að hann hefði beitt flugfreyju ítrekað kynferðislegri áreitni, verið ölvaður og sýnt vélvirkja og flugstjóra vélarinnar dónaskap.

Sagði Icelandair hegðun mannsins, og einkum ölvunarástand hans, hafa falið í sér mjög alvarlegt brot á starfsskyldum hans og gæfi heimild til brottreksturs. Flugstjórinn lést 7. mars sl. og tók þá dánarbú mannsins við málarekstrinum.

Hæstiréttur viðurkenndi rétt mannsins árið 2014

Flugstjórinn höfðaði mál á hendur Icelandair vegna uppsagnarinnar og sagði hana ólögmæta. Hann vann málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur árið 2013 og staðfesti Hæstiréttur dóminn árið 2014. Í dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að sérstakar reglur um flugstjóra hafi ekki gilt í heimferðinni og hann hafi engar skyldur borið í fluginu.

Frétt mbl.is: Réttlætti ekki fyrirvaralausa uppsögn

Var það ekki sannað að flugstjórinn hefði neytt áfengis í óhófi þannig að það hefði farið í bága við reglur Icelandair en aðilar málsins voru sammála um að maðurinn hefði drukkið tvö glös af bjór á Kastrupflugvelli áður en hann hélt þaðan. Dómurinn taldi sýnt að hann hefði sýnt af sér óviðeigandi hegðun gagnvart flugfreyjunni með því að taka í kjól hennar og reynt að kyssa hana en ekki þótti sannað að um hefði verið að ræða kynferðislega áreitni.

Þar sem Icelandair hafði ekki áður veitt manninum áminningu vegna óviðeigandi hegðunar var hegðun mannsins ekki talin þess eðlis að hún réttlætti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi, þó svo að hegðun hefði verið með þeim hætti að hún sæmdi ekki stöðu hans hjá félaginu. Féllst Hæstiréttur því á viðurkenningarkröfu mannsins.

Flugstjórinn fékk tímabundna sykursýki

Flugstjórinn veiktist eftir uppsögnina en hann fékk járnofhleðslu sem olli honum tímabundinni sykursýki með háum blóðsykri. Í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair, sem flugstjórinn heyrði undir, kveður á um að greiða skuli flugmönnum laun í allt að 13 mánuði vegna veikinda.

Sérfræðingur í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum ritaði læknisvottorð vegna veikinda flugstjórans og féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á kröfu dánarbúsins um skaðabætur er jafngilda fullum launum vegna veikinda í 13 mánuði.

Þá gerði dánarbúið kröfu um skaðabætur sem námu óskertri tryggingarfjárhæð samkvæmt skírteinistryggingu flugmanna sem tekur til atvinnumissis flugmanna vegna aldurshrörnunar en samkvæmt skírteininu skal greiða óskerta tryggingarfjárhæð að 60 ára aldri vegna missis skírteinisins.

Var Icelandair samtals gert að greiða dánarbúinu 68.873.060 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 29. september 2014 til greiðsludags, auk málskostnaðar dánarbúsins að fjárhæð tvær milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert