Lögreglan kannaði aðstæður við hjólastíginn á Kársnesi í Kópavogi þar sem kaðall hafði verið strengdur í gærkvöld þvert yfir stíginn og skapaði mikla hættu. Búið er að ganga frá kaðlinum í rétt horf en lögregla mun ekki hafa frekari afskipti af málinu nema nýjar upplýsingar komi fram.
„Það var búið að laga þetta og ekkert frekar sem við gerum í þessu í rauninni,“ segir Þóra Jónasdóttir, stöðvarstjóri lögreglunnar í Kópavogi, „ekki nema það komi einhverjar upplýsingar um hver eða hverjir strengdu þennan streng.“
Stórhættulegar aðstæður skapast fyrir hjólreiðafólk sé þetta gert, sérstaklega í ljósi þess að í dag er fólk gjarnan á góðum hjólum og fer hratt yfir að mati Þóru. „Þetta er bara stórhættulegt, þetta getur skapað mikla hættu ef þeir sjá ekki kaðalinn og hjóla á hann.“
„Vonum bara að þeir taki þetta til sín, sem stóðu fyrir þessu. Það er það eina sem við getum gert í bili alla vega,“ segir Þóra og biðlar til fólks að leggja ekki fyrir sig slíkt athæfi.
Frétt mbl.is: Strengt yfir hjólreiðastíg