Takmarkanir voru á flugferðum um Keflavíkurflugvöll í fjögur skipti í gærdag frá morgni til kvölds, í hálftíma í senn, þar sem enginn flugumferðarstjóri fékkst til að vinna yfirvinnu, að sögn Guðna Sigurðssonar upplýsingafulltrúa Isavia.
Ekki var þó útlit fyrir að frekari truflanir yrðu vegna þessa skorts á flugumferðarstjórum í nótt eða í morgun, þegar Morgunblaðið náði tali af Guðna seint í gærkvöldi.
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air, segir takmarkanirnar hafa haft víðtæk áhrif á flugferðir félagsins.
„Þær höfðu áhrif á flestöll okkar flug og meira en þúsund farþega.“
Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir félagið stefna að því að ná samningum í kjaradeilu sinni fyrir næstkomandi föstudag.
Næsti fundur í viðræðunum fer fram í dag klukkan 13 í húsakynnum Ríkissáttasemjara, en samkvæmt lögum sem sett voru á Alþingi þann 8. júní hafa viðsemjendur frest fram á föstudag, 24. júní, til að ná samningum.
Takist það ekki verður skipaður gerðardómur til að úrskurða um laun flugumferðarstjóra, að því er kveðið er á um í lögunum.
Aðspurður segir Sigurjón að flugumferðarstjórar vilji komast að samkomulagi áður en kjaraviðræðurnar fari fyrir gerðardóm.
„Við reynum að klára þetta fyrir þann tíma. Það er stefnan.“