Kynbundinn launamunur meðal félagsmanna BHM var 11,7% á síðasta ári, samkvæmt niðurstöðum kjarakönnunar sem nýlega var gerð á vegum bandalagsins. Átt er við þann launamun sem eftir stendur þegar laun beggja kynja hafa verið uppfærð miðað við 100% starf og leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum ýmissa þátta á heildargreiðslur, s.s. mismunandi starfshlutfalls og vinnustundafjölda, menntunar, aldurs og ábyrgðar í starfi. Nánar tiltekið þýðir þetta að laun kvenna innan BHM hefðu að jafnaði þurft að vera 11,7% hærri en þau voru árið 2015 til að vera jöfn launum karlanna, segir í frétt frá BHM um málið.
Óleiðréttur launamunur kynja mældist tæplega 18%, þ.e.a.s. heildargreiðslur til karla voru að jafnaði um 18% hærri en til kvenna þegar laun höfðu verið uppfærð miðað við 100% starf. Könnunin var gerð af fyrirtækinu Maskínu í mars og apríl sl. og náði til félagsmanna BHM sem voru í starfi 1. nóvember 2015, rúmlega 12.000 manns. Svarendur voru um 4.800 og var svarhlutfallið því um 40%af þýðinu.
Í sambærilegri könnun sem gerð var meðal félagsmanna BHM á síðasta ári, og náði til ársins 2014, mældist kynbundinn launamunur í heild 9,4%. Hann jókst því nokkuð milli ára ef marka má niðurstöður þessara tveggja kannana. Raunar hefur þróunin orðið mismunandi eftir vinnuveitendum. Meðal svarenda sem störfuðu hjá ríki og hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg jókst kynbundinn launamunur milli kannana en minnkaði meðal svarenda sem störfuðu hjá Reykjavíkurborg og einkafyrirtækjum.
Meðallaun og starfstengdar greiðslur félagsmanna BHM námu 631.000 kr. á síðasta ári samkvæmt könnuninni og hækkuðu um 8,5% frá fyrri könnun. Meðallaun og starfstengdar greiðslur kvenna námu 599.000 kr. og karla 699.000 kr.
BHM gerir árlega ítarlegar kannanir á kjörum og starfsumhverfi félagsmanna sinna og er könnunin nú sú fjórða í röðinni. Þessar kannanir eru mjög mikilvægur liður í hagsmunagæslu bandalagsins og aðildarfélaga þess fyrir félagsmenn og hafa m.a. nýst í kjaraviðræðum við ríki, sveitarfélög og samtök atvinnurekenda.