Heift í garð hjólreiðamanna

„Myndi keyra þig niður, drullaðu þér á gangstéttina og hættu …
„Myndi keyra þig niður, drullaðu þér á gangstéttina og hættu að stofna þér og öðrum í hættu.“ mbl/ Ómar Óskarsson

Morten Lange, stjórnarmaður í Landssamtökum hjólreiðamanna, telur ástæðu til að kanna hvort skoða megi heift í garð hjólreiðafólks eigi skylt við hatursglæpi. Hann telur þó að heilt á litið ríki almennt gagnkvæm virðing í umferðinni en að þetta sé vert að skoða.

Landssamtök hjólreiðamanna hafa ekki tekið málið fyrir með formlegum hætti en segir Morten þetta vera nokkuð sem kemur upp af og til. Hann vill fyrst kanna hvort hægt sé að setja einhvern merkimiða á þetta áður en formlega verði farið ofan í saumana á málinu.

Mikil heift

Spurður hvers vegna hann telur grundvöll fyrir því að kanna hvort um hatursglæpi sé að ræða segir hann það vera heiftina sem ríkir meðal ákveðins hóps fólks. Sérstaklega er þá um að ræða ökumenn sem mislíkar hjólreiðafólk í umferðinni en Morten hefur tekið saman dæmi um hatursfull ummæli og hegðun í garð hjólreiðamanna.

„Það er mikil heift hjá sumum og sumir segja bara að ef fólk á hjóli verði fyr­ir skaða vegna bíla sem er ekið óvarlega í kringum það, þá sé það bara þeirra eig­in sök,“ nefnir Morten. Þá hefur hann oft heyrt talað um að rétt væri að opna bílhurð á hjólreiðafólk sem leggur leið sína um umferðargötur í þeim tilgangi að losna við það. „Maður vonar að þetta sé sagt í gríni en það er samt óþægilegt þegar maður sér þetta ítrekað,“ segir Morten.

„Drullaðu þér á gangstéttina“

„Myndi keyra þig niður, drullaðu þér á gangstéttina og hættu að stofna þér og öðrum í hættu,“ er dæmi um ummæli sem hafa verið látin falla og Morten birtir í skjali sem hann tók saman á Facebook-síðunni Samgönguhjólreiðar. Titill skjalsins, „Ökumenn sem hata fólk á hjóli,“ segir Morten hafa verið valinn með bros á vör. Titillinn sé ef til vill ekki til þess fallinn að skapa góða umræðu, hann veki þó athygli en Morten vill ekki stuðla að skotgrafahernaði í umræðunni.

Þá þekkjast dæmi þess að grjóti hafi verið kastað í átt að hjólreiðafólki að ógleymdum nýlegum dæmum þess að kaðlar eða þræðir hafi verið strengdir þvert um hjólreiðastíga og þannig skapað mikla hættu fyrir hjólandi. Heiftin virðist því felast bæði í orðum og gjörðum.

Fyrri frétt mbl.is: Strengt yfir hjólreiðastíg

Kannar hvort um hatursglæpi sé að ræða

Morten hefur leitað til fulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem skoðar hatursglæpi, í þeim tilgangi að reyna að komast að því hvort heiftin í garð hjólreiðafólks geti talist hatursglæpur. Hann fékk þau svör að slíkt snúi aðeins að fyrirframskilgreindum hópum. „Ég veit ekki alveg hvernig samanburðurinn er, en mig langar bara að heyra í þeim sem eru að vinna á þessu sviði og fá smá aðstoð við að bera þetta saman og bara að fólk sé meðvitað um að þetta sé til,“ segir Morten. „Kannski er það fyrir innan einhverja skilgreiningu, kannski er það á jaðrinum eða eitthvað svoleiðis,“ bætir hann við.

Heilt á litið telur hann þó virðingu í garð hjólreiðamanna hafa aukist, þó enn sé mikill pirringur meðal einstaka hópa. „Að meðaltali tel ég að sambúðin sé að batna en svo eru einhverjir sem eru bara rosalega pirraðir og finnst að verið sé að skerða þeirra aðgengi að gatnakerfinu,“ segir Morten.

Sjálfur segist hann þó að vissu leyti skilja pirring ökumanna en ekki sé við hjólreiðafólk að sakast. Hann telur hjólreiðar verða nokkuð utanvelta og að hjólreiðastígum sé ábótavant. Hjólreiðafólki ber að taka tillit til gangandi vegfarenda á göngustígum en eru jafnframt litnir hornauga hjóli þeir á veginum. Morten telur að úr þessu megi bæta á Íslandi og bendir til að mynda á að í Danmörku og í Hollandi sé búið að byggja upp net leiða sem hannað er sérstaklega fyrir hjólreiðar.

Gagnkvæm virðing lykilatriði

Morten fagnar aukinni hjólreiðaiðkun Íslendinga og segir það mjög jákvætt fyrir margar sakir. „Það er gott fyrir lýðheilsu, það dregur úr mengun og það er eitthvað með bæjarbraginn eða borgarbraginn. Margir eru á því að hann batni með þessu,“ segir Morten, en með auknum hjólreiðum sé algengara að fólk bjóði góðan daginn, spyrji til vegar og svo framvegis. 

Morten vekur að lokum athygli á Umferðarsáttmála lögreglunnar, þar sé lögð áhersla á kurteisi og að aðalregla umferðarlaga snúist um tillitssemi og aðgát. „Gagnkvæm virðing milli fólks sem er að ferðast í umferðinni, það er það fyrsta,“ segir Morten. Í ljósi þess að ferðamátar verða sífellt fjölbreyttari sé mikilvægt að hafa þetta í huga. „En ég held að það sé eitthvað sem við getum vanist, sem sagt að taka tillit til hvert annars og slaka aðeins á,“ segir Morten að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert