Trump vill styrki frá Íslandi

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

„Við erum að tala um það að mér var að berast tölvupóstur frá Donald Trump þar sem hann biður mig að styrkja framboð sitt og hann muni setja sömu upphæð á móti,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, á Facebook-síðu sinni í kvöld. Bætir hún við að hún voni að fleiri hafi fengið þennan póst því að öðrum kosti sé hún á einhverjum skrýtnum lista.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, ritar athugasemd við stöðufærslu Katrínar og segist hafa setið á kaffihúsi þegar hún hafi fengið sambærilegan póst. Þar hafi hún verið ásamt Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins og formanni fjárlaganefndar Alþingis. „Ég hef tekið þá afdrifaríku ákvörðun að styrkja hann ekki, veit ekki hvort Vigdís Hauksdóttir ætlar að láta vaða.“

Fréttavefurinn Nútíminn fjallar um málið í kvöld og hefur hann umræddan póst undir höndum. Þar segir að pósturinn virðist raunverulegur og ekki svikapóstur en tenglar í honum vísi á raunverulega fjáröflunarsíðu Trumps.  Hann hóf nýverið söfnun styrkja í fyrsta sinn eftir að í ljós kom að kosningasjóður Hillary Clinton væri margfalt digrari en sjóðir hans sjálfs.

Hins vegar mun vera óheimilt samkvæmt bandarískum lögum að frambjóðendur afli sér stuðnings erlendis frá og gæti Trump því verið að fara á svig við lög með ósk sinni.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert