Forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, voru í gær veitt heiðursverðlaun bandarísku orkustofnunarinnar American Renewable Energy Institute, en fram kemur í fréttatilkynningu frá forsetaembættinu að hlutverk hennar sé að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku og taka þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Verðlaunin voru veitt í þriðja sinn að þessu sinni en áður hafa Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, og Ted Turner, stofnandi CNN, hlotið þau. Verðlaunin voru veitt á degi endurnýjanlegrar orku, American Renewable Energy Day, og í tengslum við þing AREDAY stofnunarinnar sem haldið er í Colorado.
Fram kemur í tilkynningunni að í ávarpi hafi Sally Ranney, forseti AREDAY-stofnunarinnar, sagt að Ólafi Ragnari Grímssyni væru veitt verðlaunin „fyrir forystu hans í að kynna sjálfbæra orku víða um heim og hvetja til aukinnar nýtingar hennar í krafti þeirrar reynslu og tækni sem Íslendingar hafa aflað sér á þessu sviði. Jafnframt væru verðlaunin veitt fyrir framlag hans til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.“