Allt hið undarlegasta mál

Katrín skilur ekkert hvernig hún komst á póstlista framboðs Donalds …
Katrín skilur ekkert hvernig hún komst á póstlista framboðs Donalds Trump. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir hefur ekki fengið neinar skýringar á tölvupósti sem henni barst í gær frá kosningaskrifstofu Donalds Trump sem keppist nú við að verða næsti forseti Bandaríkjanna. Svo virðist sem fleiri þingmenn hafi fengið póstinn, m.a. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson.

Fyrri frétt mbl.is: Tölvupósturinn frá Trump

Í póstinum er óskað er eft­ir fjár­hags­leg­um stuðningi við for­setafram­boð Trump og býðst frambjóðandinn til þess að leggja fram fram­lag á móti. 

Katrín skilur ekki hvernig tölvupóstföng íslenskra þingmanna enduðu á lista framboðsins. „En tölvupósturinn rímar við fréttir sem ég fann um þessa fjáröflun þannig þetta virðist vera alvöru,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. Það lítur þó út fyrir að pósturinn hafi verið til einskis þar sem að frambjóðendur í forsetakosningum í Bandaríkjunum mega víst ekki þiggja peninga erlendis frá.

„Þetta er allt hið undarlegasta mál,“ segir Katrín. „Ég missti andlitið þegar ég sá þennan tölvupóst.“

Aðspurð hvort hún myndi styrkja Trump ef hún gæti sagði Katrín hann ekki skora hátt á sínum lista. „Ég held að það sé nú annað í forgangi hjá mér en að styrkja Donald Trump,“ segir Katrín hlæjandi.

Í frétt The Wall Street Journal segir að Trump hafi nú sent tölvupósta á stuðningsmenn sína og óskað eftir stuðningi. Eins og flestir vita er Trump auðugur en hann hefur alls lánað kosningabaráttunni  45,7 milljónir Bandaríkjadala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka