Gummi Ben fær engan frið

Guðmundur Benediktsson fær engan frið frá erlendum fjölmiðlum eftir lýsinguna …
Guðmundur Benediktsson fær engan frið frá erlendum fjölmiðlum eftir lýsinguna í gær. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég man ekkert hvað ég sagði. Það er erfitt að koma tilfinningum í orð. Ég fagnaði bara,“ segir Guðmundur Benediktsson í samtali við Dagbladet, en hann lýsti leik Íslands og Austurríkis í gær með eftirminnilegum hætti. Lýsing hans hefur vakið mikla athygli um allan heim og hafa erlendir fjölmiðlar ekki látið hann í friði í dag.

Ísland vann leikinn með marki á lokamínútunni. Guðmundur öskraði hátt og snjallt í nær heila mínútu. Hann segist hafa hrifist með í augnablikinu.

„Þetta er stærsta afrekið í sögu íslenskra íþrótta. Ég man ekkert hvað ég sagði. Þetta var aðallega bara öskur,“ segir Guðmundur.

Sjá frétt mbl.is: Gummi Ben smitar heiminn

Blaðamaður Dagbladet bendir á að sími Guðmundar hafi ekki hætt að hringja á meðan á viðtali hans stóð. 

„Ég held þetta sé BBC sem er að reyna að ná í mig. Mér finnst þetta ekkert sérstakt, ég kann eiginlega ekkert sérstaklega vel við mig í sviðsljósinu,“ segir Guðmundur við blaðamanninn. 

Aðspurður hvernig hann spái leik Íslands og Englands, var Guðmundur afdráttarlaus. „Ég held við vinnum í vítaspyrnukeppni. Englendingar tapa alltaf í vítaspyrnukeppnum.“

Líkt við norska lýsendagoðsögn

Blaðamaður Dagbladet ber lýsingu Guðmundar saman við lýsingu norsku goðsagnarinnar Bjørge Lillelien, sem lýsti leik Norðmanna og Englendinga árið 1981 þegar Norðmenn fóru með sigur af hólmi, 2-1. Lýsing Lilleliens var á þessa leið:

„Við erum bestir í heimi! Við erum bestir í heimi! Við höfum unnið Englendinga 2-1 í fótbolta. Það er ótrúlegt. England, fæðingarstaður risanna!“

„Lord Nelson! Lord Beaverbrook! Sir Winston Churchill! Sir Anthony Eden! Clement Atlee! Henry Cooper! Lady Diana! Við höfum sigrað þau öll! Maggie Thatcher, can you hear me? Maggie Thatcher ég er með skilaboð til þín. Ég er með skilaboð til þín í miðri kosningabaráttu! Við höfum slegið út Englendinga af HM. Eins og sagt er á þínu tungumáli: Your boys took a hell of a beating!“

Sjá frétt mbl.is: Gummi Ben sturlast - nýr hringitónn

Guðmundur segist í viðtalinu kannast við þessa lýsingu Lilleliens. 

„Sem leikmaður náði ég aldrei að komast á neitt stórmót. Ég fann bara fyrir gríðarlegri gleði á þessu augnabliki í gær. Þetta er draumur allra knattspyrnumanna á Íslandi,“ segir Guðmundur.

Norski fjölmiðillinn NRK hefur líka mikinn áhuga á lýsingu Guðmundar. Á Facebook-síðu útvarpsstöðvarinnar P13 birtist þessi remix-útgáfa af lýsingu Guðmundar, í sönnum þungarokksstíl. 

Sjá viðtal Dagbladet við Guðmund í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert