Uppgjör við stórkallalega embættistíð

Forsetahjónin Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.
Forsetahjónin Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er margt mjög óljóst í umgjörð embættisins og þetta embætti og hvernig það hefur verið virkjað er mjög háð persónulegri túlkun þeirra sem verma stólinn hverju sinni,“ segir Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Lokafundur í fundaröðinni Forseti Íslands: Hvers konar embætti er þetta? fór fram í Háskóla Íslands fyrr í dag.

Rætt var um það við hverju megi búast í þróun forsetaembættisins í kjölfar kosninganna 25. júní. Þátttakendur í umræðunum voru þau Guðmundur Hálfdanarson, prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, Valgerður A. Jóhannsdóttir, aðjúnkt í blaða-og fréttamennsku við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Ert þú búin(n) að taka ákvörðun?
Ert þú búin(n) að taka ákvörðun? mbl.is

Brýnt að skýra forsetaembættið betur 

Guðmundur Hálfdanarson tók fyrstur til máls og ræddi stöðu forseta og hlutverk út frá stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Hann fór ítarlega yfir 26. grein stjórnarskrár en í henni er mælt fyrir um að ef Alþingi samþykki lagafrumvörp skuli þau lögð fram fyrir forseta lýðveldisins til samþykkis eða synjunar. „Almennur skilningur á 26.gr. stjórnarskrár var sá að hún væri dauður bókstafur og Ólafur Ragnar sagði það sjálfur áður en hann beitti henni árið 2004,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði brýnt að skýra forsetaembættið betur þar sem að skilgreining þess í stjórnarskrá sé afar þversagnakennd og opin fyrir ólíkum túlkunum. „Að mínu mati er farsælast að miða við ríkjandi hefðir um að forseti blandi sér ekki í lagasetningu eða gerðir framkvæmdavalds. Þetta leiðir af 11. gr. stjórnarskrár.“

Þá sagði Guðmundur að ef ákveðið verði að forseti eigi að skipta sér með virkum hætti af löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi sé nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni þannig að forseti hafi virkt umboð.

Baráttan um Bessastaði.
Baráttan um Bessastaði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vigdís var landsmóðurleg ímynd 

Næst til máls tók Þorgerður Einarsdóttir en hún ræddi um forsetaembættið í kynjafræðilegu samhengi. „Ísland mælist með minnsta kynjabil í heimi eins og kunnugt er á mælistiku World Economic Forum. Sú mælistika er býsna samsett en þegar grannt er skoðað sést að það er þökk sé Vigdísi, þökk sé kvenforsetanum okkar,“ sagði Þorgerður.

Hún sagði ímynd embættisins og ásjónu hafa breyst mikið síðan að Ólafur Ragnar Grímsson tók við embætti forseta Íslands. „Ímynd Vigdísar var þessi milda landsmóðurlega ímynd. Hún var sameiningartákn sem stóð utan við flokkadrætti og dægurþras, hún var tákn hvítleikans.“

Þorgerður sagði Ólaf Rangar hafa fljótlega fært sig upp á skaftið er hann tók við sem forseti og embættið fengið á sig karlaímynd eða kyngervi og endað í raun sem stórkallalegt valdaembætti með 26.gr. stjórnarskrár sem valdatæki.

„Eftir hrunið var ímynd hans löskuð en hann gekk í endurnýjun lífdaga með Icesave en þar spilaði hann á þjóðernishyggju. Með þessu sýndi hann hvað það er að vera Íslendingur og varð holdtekja stjórnmálamennskunnar á Íslandi.“ Að lokum sagði Þorgerður að með nýjum forseta fengist ákveðið uppgjör við hruntímann og stórkallalega embættistíð í forsetaembættinu.

Þeir frambjóðendur sem mælast nú með mest fylgi: Guðni Th. …
Þeir frambjóðendur sem mælast nú með mest fylgi: Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir. mbl.is

Samfélagsmiðlar ekki einir sér nóg 

Valgerður A. Jóhannsdóttir ræddi um áhrif fjölmiðla og samfélagsmiðla á forsetakosningarnar. Hún sagði umfjöllun um kosningarnar hafa verið mikla bæði í hefðbundnum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlunum. „Þessir hefðbundnu fjölmiðlar hafa ekki bara verið á þessum hefðbundna vettvangi heldur líka á öðrum vettvangi og notað nýjar miðlunarleiðir, til dæmi lét RÚV frambjóðendur hafa Snapchattið sitt í einn dag,“ sagði Valgerður.

Hún segir ljóst að samfélagsmiðlar séu orðnir ein veigamesta uppspretta frétta og upplýsinga fyrir stóran hóp fólks en setur þó fyrirvara við það að samfélagsmiðlarnir hafi gjörbreytt eðli kosningabaráttunnar.

„Það er ljóst að samfélagsmiðlar eru orðnir veigamikil uppspretta frétta og upplýsinga fyrir mjög stóran hóp. Samfélagsmiðlar geta náð til fleiri fljótar og með minni kostnað en þessir hefðbundnu miðlar og kjósendur hafa þennan milliliðalausa aðgang. En samfélagsmiðlarnir eru ekki einir sér nóg, það eru allir frambjóðendur líka að nota þessu hefðbundnu miðla og auglýsa þar,“ sagði Valgerður.

Forsetakosningar fara fram á laugardag.
Forsetakosningar fara fram á laugardag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er ég kannski ekki nógu „interessant“ fyrir kjósendur?

Að lokum tók Ólafur Þ. Harðarson til máls og ræddi hlutverk forseta í tengslum við þingrof. Hann sagðist sjálfur hafa skrifað margar greinar um þingrofsrétt og upplýst menn um það að þingrofsréttur væri hjá forsætisráðherra. Tók hann sérstaklega fram, að hann vissi ekki til að Ólafur Ragnar Grímson hefði viðrað þá skoðun, að forseti gæti rofið þing án aðkomu forsætisráðherra. 

Þá sagði hann kosningabaráttuna klárlega hafa haft áhrif og breytt ákveðnum hlutum. Það komi gleggst fram í framboði Höllu Tómasdóttur sem hafi í byrjun mælst með 0–2% fylgi en sé nú komin í 15–20% fylgi. 

„Það er fróðlegt að bera hana saman við aðra frambjóðendur sem hafa ekkert breyst. Vegna þess að frambjóðendur hafa slíkar hugmyndir um eigið ágæti að ef þeir bjóða sig fram sé náttúrulegt ástand að þeir fái 20–30% og ef þeir fá þau ekki þá séu einhver náttúruleg öfl að verki í samfélaginu sem koma í veg fyrir það, til dæmis skoðanakannanir eða fjölmiðlar en engum dettur í hug að líta í eigin barm og segja: Hefur þetta kannski eitthvað með mig að gera? Er ég kannski ekki nógu „interessant“ fyrir kjósendur?“ sagði Ólafur.

Að lokum vék hann máli sínu að samfélagsmiðlunum og sagði þá áhugvert fyrirbæri. Með aukinni tækni sé frambjóðendum veitt meira aðhald svo erfitt sé fyrir þá að fara með ósannindi. „Í gamla daga var ekki mjög auðvelt að leiðrétta þetta og það voru ekki nema gleggstu menn sem mundu gamlar syndir. En núna þegar frambjóðandi segir eitthvað eru þúsundir manna farnir að googla það strax,“ sagði Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert