Eigendur tveggja húsa á höfuðborgarsvæðinu fá þrjá mánuði til þess að bæta úr eldvörnum í húsunum, annars verður þeim lokað. Í húsunum er ýmiss konar starfsemi og í öðru þeirra eru jafnframt leiguíbúðir samkvæmt heimildum mbl.is.
„Okkar verklag er þannig að við reynum að finna lausnir og sýna þolinmæði en stundum þurfum við að grípa í það úrræði að hóta lokun ef ekki er úr bætt,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Hann segir viðbrögð húseigenda misjöfn, sumir ákveða að loka á meðan aðrir reyna að halda starfseminni áfram og þá bæta úr eldvörnum.
Jón Viðar er ekki viss hver næstu skref verða varðandi húsin tvö, sem standa við Keilugranda og Köllunarklettsveg. „Þau hafa þarna þriggja mánaða ramma til þess að bregðast við og við þurfum að sjá hvernig þetta þróast.“
Aðspurður hvaða atriði það eru sem verða til þess að slökkvilið hafi afskipti af eldvörnum í húsnæði segir Jón Viðar að það sé um leið og ástandið skapi ógn gagnvart þeim sem búa eða dvelja í húsinu. „Ef það eru mannslíf í húfi skiptum við okkur af,“ segir Jón Viðar og bætir við að það snúi oft að því hvernig flóttaleiðir byggingarinnar virka og hvort reykútbreiðslan er innan marka.
„Þá skiptir einnig máli hvernig eldvarnarkerfi hússins virkar, hvort reykskynjarar séu virkir og þess háttar. Þetta eru allir þessir þættir sem hafa með öryggi íbúa eða þeirra sem dvelja í húsnæðinu að gera,“ segir Jón Viðar.
Að sögn Jóns Viðars fær slökkviliðið stundum ábendingar um húsnæði þar sem eldvörnum er ábótavant en þá koma þær líka oft í gegnum reglubundna skoðun. „En ef fólk er eitthvað óöruggt varðandi húsnæði á það endilega að hafa samband. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að hafa hlutina í lagi. Stundum gengur það hratt og vel en stundum hægar. Þá þurfum við að grípa í svona leiðindaúrræði eins og að hóta lokunum.“