„Ég er bara orðlaus, algjörlega orðlaus af undrun og þakklæti,“ segir Kolbrúnu Dögg Arnardóttir en það kom henni heldur betur í opna skjöldu þegar bláókunnugur maður bauðst til að gefa henni dekk undir bílinn. „Ég varð bara klökk," segir hún í samtali við mbl.is.
Kolbrún grennslaðist eftir því í Facebook-hópnum „Brask og brall“ hvort einhver gæti lánað henni 15" dekk til mánaðamóta en hún hafði ekki efni á að kaupa nýtt dekk fyrr en eftir mánaðamót. Hún hafði lofað sonum sínum að fara á bílasýningu fyrir austan fjall um helgina og þótti miður að þurfa að svíkja loforðið þegar dekk sprakk undir bílnum og leitaðist hún því eftir því að fá lánað dekk.
Gísli Björnsson starfar sem smiður í Vestmannaeyjum, segist hafa vaknað í góðu skapi í morgun og þegar hann sá færslu Kolbrúnar hugsaði hann með sér að í dag skyldi hann gera góðverk. „Þetta er svolítið furðulegt,“ segir Gísli en hann átti ekki von á að uppátækið vekti svo mikla athygli. Síminn hefur vart stoppað hjá honum í dag þar sem vinir hans og vandamenn, jafnvel ókunnugir, vanda honum kveðjurnar fyrir góðverkið.
Kolbrún átti bágt með að trúa því í fyrstu að Gísla væri alvara en hann sendi henni skilaboð og óskaði eftir reikningsupplýsingum og ekki leið á löngu þar til hann hafði lagt inn á hana fyrir dekkinu.
„Þetta hefur bara rosalega mikla þýðingu, ég átti ekki fyrir þessu dekki og var búin að lofa sonum mínum,“ segir Kolbrún en hún er öryrki og segir hún uppátæki Gísla hafa komið sér mjög vel. Hún er Gísla virkilega þakklát og Dekkjasölunni í Hafnarfirði einnig, en þeir kláruðu vinnuna við dekkið henni að kostnaðarlausu þegar þeir heyrðu hvers eðlis var.
„Já klárlega, þetta er bara mögulega það besta sem ég hef gert,“ segir Gísli, aðspurður hvort hann hyggist gera fleiri slík góðverk í framtíðinni.