Fyrsta verkefni nýs forseta að byggja upp traust

Ólafur Ragnar Grímsson lýkur 20 ára setu sem forseti Íslands …
Ólafur Ragnar Grímsson lýkur 20 ára setu sem forseti Íslands 1. ágúst næstkomandi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ræddi embættistíð sína, nýjan forseta og væntanleg verkefni sín við fréttamenn í sjónvarpssal RÚV um eittleytið í nótt.

„Reynslan segir okkur að við getum óskað væntanlegum forseta og fjölskyldu hans til hamingju og farsældar í starfi,“ sagði Ólafur Ragnar. Hann ætlar hins vegar að bíða með að óska Guðna Th. Jóhannessyni formlega til hamingju þar til lokaniðurstöður liggja fyrir. 

„Ég þekki Guðna ágætlega sem fræðimann og tel að það sé farsælt að embættinu gegni maður sem þekkir vel sögu þess og þann vanda sem fyrri forsetar hafa staðið frammi fyrir.“ Ólafur Ragnar sagði að það skipti jafnframt máli að forsetinn hefði framtíðarsýn og skynjaði takt sinnar tíðar.

Spurður hvort hann reiknaði með að Guðni myndi leita til hans og hvort hann myndi gefa honum ráð óskaði hann þess sagði Ólafur Ragnar: „Ég mun gera það með glöðum huga en embættið er ólíkt öðrum kjörnum embættum vegna þess að forsetinn hefur ekki neina formlega samstarfsmenn í kringum sig. Hann ber ábyrgðina einn. Þótt hann leiti ráða og álits er ábyrgðin alltaf hans.“

Lýðræðislegt samfélag fólksins í landinu tók ákvörðun

Ólafur Ragnar sagði það mikið gleðiefni að íslenska þjóðin hefði gert upp hug sinn með sjálfstæðum hætti hvernig hún kysi í forsetakosningum. „Hér áður fyrr reyndu stjórnmálaflokkar að móta skoðanir kjósenda en það sem gerðist þegar atkvæði eru talin er að fólkið hefur með sjálfstæðum hætti gert upp hug sinn, sem er lýðræðislegur styrkur.“

Ólafur Ragnar telur að erfitt sé að kortleggja forsetatíð nýs forseta fyrirfram, það sýni sagan. „En sagan sýnir líka að jafnvel þótt forseti fái ekki meirihluta atkvæða í upphafi þá tekst forsetum, og ég vona að honum takist það líka, að ná trausti þjóðarinnar þótt hann hafi ekki meirihlutann með sér og ég vona að það verði hans góða veganesti. Það er kannski fyrsta mikilvæga verkefnið sem nýr forseti stendur fyrir á sínum fyrstu mánuðum og misserum.“ 

Norðurslóðir og umhverfisvernd

Ólafur Ragnar mun nú horfa til framtíðar. „Það sem skiptir mig mestu máli ef ég horfi til framtíðar er að geta einbeitt mér að norðurslóðum, framtíð hafanna og hafa meira frelsi til að tjá mig, en það er ýmislegt sem ég hefði viljað segja en taldi ekki vera við hæfi á meðan ég var í embætti.“

Meðal mála á dagskrá hjá Ólafi Ragnari er málþing um norðurslóðir sem fer fram hér á landi í október. „Síðan hef ég fengið óskir frá alþjóðlegum umhverfisverndarsamtökum um að vinna með þeim. Mitt vandamál á næstu árum verður að vinna úr þessum verkefnum og ákveða í hverju ég vil taka þátt og ég hlakka mikið til þess.“ 

Ólafur Ragnar situr sem forseti til 1. ágúst. Hann býst við að síðasta opinbera verkefni sitt verði að taka þátt í 150 ára hátíðahöldum Ísafjarðarbæjar. Næsta verkefni Ólafs Ragnars er hins vegar að fara á landsleik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu á mánudag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert