„Ég vil læra af sögunni um leið og ég lít bjartsýnn fram á veg, fylgja hinu góða fordæmi þeirra sem áður hafa gegnt embætti forseta Íslands,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti Íslands, þegar hann ávarpaði mannfjöldann sem safnaðist saman fyrir utan heimili hans á Seltjarnarnesi í dag. Sagðist hann hafa vaknað í morgun sem sami maður og áður. Þrátt fyrir að hafa verið kosinn þjóðhöfðingi vildi hann áfram vera einn af þjóðinni.
„Við búum við ein mestu lífsgæði sem um getur í heiminum vegna þess að við höfum notið góðs af samvinnu við önnur ríki og frumkvæði þeirra á ýmsum sviðum. Um leið höfum við Íslendingar eflst og dafnað vegna ættjarðarástar, þeirrar djúpstæðu tilfinningar sem er svo dýrmæt í réttum mæli. En ástin á landi og þjóð má ekki verða svo mikil að búin sé til fölsk mynd af afrekum og kostum að fornu og nýju. Það væri háð en ekki lof,“ sagði hann.
Guðni kom einnig inn á hlutverk forseta sem sameiningartákns. „Kannski er forseta erfiðara en áður að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Áfram ætti viðleitnin þó að vera virðingarverð, að stefna að því að sameina frekar en sundra. Það verður mitt leiðarljós. Til þess að mér takist það verð ég að vera ég sjálfur, gera það sem ég vil, faðma heiminn. Með ykkar hjálp, kæru landar, heiti ég því að leggja mig allan fram í því mikla embætti sem ég tek senn við.“
Ræða Guðna í heild:
„Góðir Íslendingar, kæru vinir! Ég heilsa ykkur og þakka sem nýkjörinn forseti Íslands. Ég met mikils það traust sem mér hefur verið sýnt, þann sóma sem ég núna nýt. Ábyrgðarmeira embætti er vandfundið hér á landi. Á mér hvílir sú skylda að reynast traustsins verður. Við kusum okkur nýjan þjóðhöfðingja í gær, kæru landsmenn. Í morgun vaknaði ég þó sami maður og áður. Ég vil halda áfram að vera einn af ykkur.
Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands, var kjörinn á Þingvöllum, hinum forna þingstað okkar, hinn 17. júní 1944, fyrir sjötíu og tveimur árum, þegar Ísland varð lýðveldi. Sveinn kvaðst líta á starf sitt framar öllu sem þjónustu við heill og hag íslensku þjóðarinnar. Næstu forsetar Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson voru sama sinnis. Allir mótuðu þó embætti sitt eftir eigin höfði, innan þess ramma sem lög, venjur og tíðarandi leyfðu.
Ég vil læra af sögunni um leið og ég lít bjartsýnn fram á veg, fylgja hina góða fordæmi þeirra sem áður hafa gegnt embætti forseta Íslands. Ég trúi því og treysti að viljum áfram búa í samfélagi mannúðar, réttlætis og jafnaðar. Við viljum líka búa í samfélagi framfara þar sem fólk fær tækifæri til að sýna hvað í því býr, í fallegu landi sem við njótum og nýtum, öllum til hagsbóta. Landinu skulum við líka skila til næstu kynslóða þannig að þær fái þess einnig notið.
Með öðrum orðum: Við byggjum saman bæ í sveit, sem brosir móti sól. Ljúfu lífi landið vítt, mun ljá og veita skjól. Margt hefur breyst á þeim rúmu sjö áratugum sem liðið hafa frá lýðveldisstofnun. Við búum hér enn, Íslendingar, njótum enn betri lífskjara en gerðist og gekk um þá daga. Um leið er samfélag okkar orðið fjölbreyttara. Það er breyting til batnaðar. Í því felst frelsi. Þjóð með sjálfstraust óttast ekki breytingar, fleiri siði, ólíkt fólk.
Þjóðir geta vart búið sér verri örlög en þau að streitast á móti nýjungum. Við búum við ein mestu lífsgæði sem um getur í heiminum vegna þess að við höfum notið góðs af samvinnu við önnur ríki og frumkvæði þeirra á ýmsum sviðum. Um leið höfum við Íslendingar eflst og dafnað vegna ættjarðarástar, þeirrar djúpstæðu tilfinningar sem er svo dýrmæt í réttum mæli. En ástin á landi og þjóð má ekki verða svo mikil að búin sé til fölsk mynd af afrekum og kostum að fornu og nýju. Það væri háð en ekki lof.
Í samfélagi á fleygiferð inn í framtíðina verður kannski sífellt erfiðara að sameina okkur. Kannski er forseta erfiðara en áður að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Áfram ætti viðleitnin þó að vera virðingarverð, að stefna að því að sameina frekar en sundra. Það verður mitt leiðarljós. Til þess að mér takist það verð ég að vera sjálfur, gera það sem ég vil, faðma heiminn. Með ykkar hjálp, kæru landar, heiti ég því að leggja mig allan fram í því mikla embætti sem ég tek senn við.
Bestu þakkir fyrir að koma hingað að heimili okkar Elizu og barnanna og vera með okkur á þessum hátíðardegi. Njótið dagsins, góðir Íslendingar, njótið framtíðarinnar og alls þess sem land okkar og samfélag veitir okkur.“