Guðni Th. Jóhannesson, nýkjörinn forseti Íslands, er bjartsýnn fyrir leik Íslands gegn Englandi á EM. Hann kom ásamt eiginkonu sinni, Elizu Reid, til frönsku borgarinnar Nice í dag þar sem leikurinn fer fram í kvöld.
mbl.is spjallaði við Guðna og fékk hann til að spá í spilin.
„Við getum leyft okkur að vera bjartsýn og raunsæ og stefna að sigri, því okkar strákar hafa sýnt það hingað til að þeir óttast engan.“
Guðni segir að Englendingar verði ekkert endilega með sterkara lið á vellinum í kvöld. „Það er margt sem vinnur þeim í mót. Við höfum engu að tapa. Þannig er þetta,“ sagði Guðni í blíðunni í Nice í dag.
Guðni telur það hafa verið skyldu sína að mæta út til Nice. „Eins mikill íþróttaáhugamaður og ég er, þá er þetta ógleymanleg stund. Hvernig sem fer í kvöld. Hvernig sem fer þá erum við búin að sýna og sanna hvað í okkur býr.“