Árangur íslenska fótboltalandsliðsins er ekki bara á allra vörum hér á landi heldur keppast fréttastofur víðs vegar um heim að segja frá afreki strákanna. Þannig voru forsíður vefmiðla víða um Evrópu með umfjöllun um leikinn á forsíðu sinni í gær. Liðið hefur einnig eignast fjölda nýrra aðdáenda og netnotendur virðast mjög áhugasamir um liðið, land og þjóð.
Þannig hefur áhugi á leitarorðinu „Iceland“ ekki verið meiri hjá leitarvélinni Google síðan gosið stóð yfir í Eyjafjallajökli árið 2010 og stoppaði flugsamgöngur um allan heim. Nú er spurning hvort fótboltaliðið okkar sé ekki orðið að næsta stóra atriðinu sem útlendingar tengja við Ísland, á eftir Björk, Eyjafjallajökli, fallegri náttúru, bankahruninu og Sigur Rós.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig þróunin hefur verið í leitarvél Google frá árinu 2005, en áhuginn á Íslandi miðað við þennan mælikvarða er núna miklu meiri en til dæmis í bankahruninu. Google gefur ekki upp nákvæmar tölur í svona mælingum, en miðað er við að vinsælasti viðburðurinn fari upp í 100 stig og annað er þar fyrir neðan í hlutfallslegu samræmi.
Þegar farið er í nákvæmari greiningu, t.d. með því að skoða vinsældir leitarorðsins „Iceland national football team“ er niðurstaðan svipuð þótt áður hafi komið stórir toppar. Toppurinn þessa dagana er þó sá allra stærsti frá upphafi. Það má þó ljóst vera að vinsældir Íslands þessa dagana á leitarvélinni eru ekki síst til komnar vegna árangurs fótboltaliðsins sem með þessu er því orðin ein af stærri landkynningum Íslands undanfarinn áratug.