Líta ástandið í Írak öðrum augum

Mennirnir voru sóttir í Laugarneskirkju aðfaranótt þriðjudags í þessari viku.
Mennirnir voru sóttir í Laugarneskirkju aðfaranótt þriðjudags í þessari viku. Ljósmynd/Ekki fleiri brottvísanir

„Það er miklu lægra hlutfall Íraka sem fær hæli í Noregi en í öðrum Evrópuríkjum. Þeir hafa bara mjög harða stefnu í þessum málaflokki og líta ástandið í Írak öðrum augum en við. Það er ekki hægt að útskýra það öðruvísi.

Þeir hafa reyndar samning við IOM sem er stofnun sem auðveldar á flutning á fólki aftur til síns heima og þeir hafa notað það að einhverju leyti. Við erum ekki með svoleiðis samning,“ segir Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, aðspurð um stöðu hælisleitenda frá Írak í Noregi.

Tveir hælisleitendur frá Írak voru fluttir úr landi aðfaranótt þriðjudags eftir að hafa verið sóttir í Laugarneskirkju. Umsóknir mannanna voru afgreiddar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi.

Norsk yfirvöld höfðu þegar móttekið umsóknir beggja manna um hæli. Í tilkynningu sem Útlendingastofnun sendi frá sér í gær sagði að ekkert í málunum benti til þess að málin myndu ekki fá réttláta og fullnægjandi málsmeðferð hjá norskum yfirvöldum.

Umsækjendurnir kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti niðurstöðu stofnunarinnar. Úrskurðum kærunefndar var ekki skotið til dómstóla.

Annar mannanna sótti um hæli hinn 29. nóvember 2015 og var ákvörðun Útlendingastofnun í málinu birt honum hinn 2. febrúar 2016. Hinn maðurinn sótti um hæli hinn 6. janúar sl. og var ákvörðun í málinu birt 16. febrúar. Úrskurðir kærunefndar útlendingamála voru birtir hinn 11. maí sl.

„Ein erfiðustu málin sem við fáum“

Guðríður segir að margir Írakar hafi komið hingað um svipað leyti á þessu ári sem allir áttu það sameiginlegt að hafa óskað eftir hæli í Noregi. Málum þeirra var ekki lokið þar í landi þegar þeir komu hingað. „Það var svona hálfpartinn búið að segja við marga hverja, ef ekki alla, að þeir myndu vera sendir til baka. Þeir voru ekki búnir að fá formlegt svar en fengu þær upplýsingar mjög skýrt,“ segir hún um stöðu þeirra í Noregi áður en þeir komu hingað til lands.

„Ef maður skoðar fjölmiðlaumfjöllun og Facebook-síðu Útlendingastofnunar í Noregi er með kerfisbundnum hætti verið að fæla fólk frá Írak frá því að sækja um hæli í þar. Fólk hugsar um Noreg sem svo mikið fyrirmyndarríki. En það er ekki þannig hvað varðar þennan málaflokk.

Þetta eru ein erfiðustu málin sem við fáum, það eru Írakar sem koma hingað en eru búnir að sækja um hæli í Noregi. Af því að við vitum alveg hvað verður um þessa menn,“ segir hún og bætir við að allt bendi til þess að mennirnir verði sendir aftur til Írak frá Noregi. Guðríður segir einnig að biðtími þeirra sé mun lengri en á Íslandi.

Guðríður bendir á að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi gert athugasemdir við nýlegar breytingar á útlendingalögum í Noregi og endursendingar norska ríkisins á sýrlenskum flóttamönnum til Rússlands.

Mál 42 Íraka voru afgreidd á fyrstu fimm mánuðum ársins. Tíu þeirra hæli og níu viðbótarvernd. Mál tuttugu og þriggja hlutu ekki efnislega meðferð hér á landi; nítján á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þrír sem hlotið höfðu vernd í öðru landi og einn dró umsókn sína til baka. Engu þeirra mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar var synjað.

Tekin var ákvörðun um mál 1.087 Íraka í Noregi á sama tímabili. 37 þeirra fengu hæli í landinu. Einn fékk dvalarleyfi af mannúðarástæðum og var 391 beiðni synjað. 165 Írakar voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og þá voru 474 beiðnir dregnar til baka.

Frétt mbl.is: Ekki undir lögaldri

Frétt mbl.is: Dregnir út úr kirkjunni í nótt

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert