Sjónum beint að varnarleysi smáríkja

Nemendur við sumarskólann um smáríki fyrir utan utanríkisráðuneytið síðasta sumar.
Nemendur við sumarskólann um smáríki fyrir utan utanríkisráðuneytið síðasta sumar. Ljósmynd/Aðsend mynd

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir að ólga í efnahagsmálum í Evrópu sem og aukin ógn vegna Rússlands hafi aukið áhugann á smáríkjum og smáríkjafræðum. Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands hefur rekið sumarskóla um smáríki á hverju sumri síðustu 14 árin og sækja 26 háskólanemar víðs vegar að úr Evrópu skólann í ár.

„Fyrir efnahagshrunið 2008 þá horfðu svo margir stjórnmálamenn og fræðimenn aðeins til kostanna sem fólust í litlu markaðshagkerfi og sveigjanleikanum sem því fylgdu,“ segir Baldur. „Í sumarskólanum um smáríki í Evrópu tölum við bæði um tækifærin sem felast í smæðinni og um þá galla sem felast í því. Við erum að glíma við þessi helstu mál sem smáríki fást við dags daglega, hvernig þau geta styrkt efnahagslega stöðu sína, hvernig þau geta varið sig,“ segir Baldur.

Hann segir námið spanna vítt svið. „Allt frá því að fjalla um það hvernig eigi að skilgreina smáríki,” segir Baldur. „Við skilgreinum það vítt, öll Norðurlöndin eru smáríki. Við þurfum ekki eina fasta skilgreiningu, það sem skiptir máli er samanburðurinn. Ísland er lítið miðað við Svíþjóð og Svíþjóð er lítið miðað við Þýskaland.”

Baldur segir að í vaxandi mæli þurfi smáríki að huga að vörnum, sérstaklega í Mið- og Austur-Evrópu. „Rússland virðir ekki lengur landamæri nágranna sinna. Þeir hafa sýnt það á síðustu 10 árum að þeim er ekki treystandi til að virða fullveldisrétt nágranna sinna,” segir Baldur.

„Það koma nemendur að alls staðar úr Evrópu. Það er gaman að kenna svona ólíkum hópum, frá Íslandi, Eystrasaltslöndunum, Möltu og Kýpur. Menn hafa ólíka sýn á varnarmál. Í Austur-Evrópu er allt öðru vísi sýn á varnarleysi smáríkja þegar kemur að voldugum nágrönnum eins og Rússlandi en í Vestur-Evrópu,” segir Baldur og bætir við að Vestur-Evrópubúar eigi erfitt með að skilja ógnina sem stúdentar í Austur-Evrópu skynja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert