Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, treystir því að utanríkisráðherra sé ekki að boða breytingar með sameiginlegri yfirlýsingu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytis Íslands.
Hún telur ákvæði um aukið samstarf sem snýr meðal annars að leit og björgun ofaukið. Frekar ætti að leita alþjóðlegs samstarfs en að semja sérstaklega við Bandaríkin.
Yfirlýsingin var undirrituð í gær, bæði hér á landi og í Bandaríkjunum. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur sagt í samtali við fjölmiðla að yfirlýsing um varnarsamstarf við Bandaríkin sé aðeins formfesting á því sem verið hafi.
„Ráðherrann segir að hún sé að setja niður á blað eitthvað sem er staðreynd, að hún sé ekki að boða eitthvað nýtt. Ég treysti því að svo sé,“ segir Valgerður í samtali við mbl.is.
Í samningnum segir meðal annars:
„Utanríkisráðuneyti Íslands áréttar, fram framlag til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins, skuldbindingu sína um rekstur varnaraðstöðu- og búnaðar, meðal annars rekstur íslenskra loftvarnarkerfisins (IADS), um að veita gistiríkisstuðning vegna annarra aðgerðaþarfa, eins og loftrýmisgæsluverkefna Atlantshafsbandalagsins frá flugbækistöðinni í Keflavík, aukinnar tímabundinnar viðveru á vettvangi eftir þörfum, meðal annars en ekki einvörðungu vegna viðveru kafbátaleitarvéla, og vegna sameiginlegra áætlanagerða og varnaræfinga fyrir bandalagið.“
Valgerður vill leggja áherslu á þá auknu tímabundnu viðveru sem kveðið er á um í yfirlýsingunni. „Eins og ég skil þetta þá er það þannig að hingað koma Bandaríkjamenn í loftrýmisgæslu og hafa gert í einhvern tíma, þá dvelja þeir hér tímabundið á meðan. Síðan koma þeir út af þessum kafbátum og eru líka tímabundið í því. Svo fara þeir aftur,“ segir hún og bætir við að hún skilji þetta ekki þannig að bandarískir hermenn ætli að setjast hér að núna eða á næstunni og vera hér tímabundið í einhvern tíma.
Þá setur Valgerður spurningamerki við áttunda atriði yfirlýsingarinnar en það hljóðar svo:
„Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og hlutaðeigandi íslensk yfirvöld hyggjast kanna aukið samstarf, meðal annars hugsanlegar sameiginlegar æfingar, þjálfunarstarf og starfsmannaskipti á sviðum eins og, en sem ekki einskorðast við, leit og björgun og neyðaraðstoð.“
Hún segist leggja áherslu á alþjóðlega samvinnu í þessum málum, ekki að samið sé sérstaklega við Bandaríkin. „Ég vildi leggja áherslu á að þennan þátt eigum við að rækta meira í alþjóðlegri samvinnu,“ segir Valgerður.