Forsetinn tekjuhæstur

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar Grímsson, fráfarandi forseti, er tekjuhæstur af æðstu ráðamönnum landsins með tæpar 2,3 milljónir króna í mánaðarlaun, samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Á eftir honum raða ráðherrar ríkisstjórnarinnar sér í efstu sæti listans.

Á eftir Ólafi Ragnari kemur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, með 1,7 milljónir króna í laun á mánuði samkvæmt útreikningum tímaritsins. Í næstu tveimur sætum eru flokkssystkini hans Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, og Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, með tæpar 1,7 milljónir og rúmar 1,5 milljónir í mánaðartekjur hvort.

Í fimmta sæti er Einar Kr. Guðfinnsson, forseti Alþingis með tæpa 1,5 milljón krónur en á eftir honum koma þau Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, öll með rúmar 1,3 milljónir króna.

Í tíunda sæti listans er svo Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, með tæpar 1,3 milljónir króna í mánaðartekjur.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, er hæst launaði stjórnarandstöðuþingmaðurinn með 1,1 milljón krónur í mánaðarlaun og vermir hún 14. sæti listans yfir hæst launuðu ráðherrana og þingmennina.

Í blaði Frjálsrar verslunar er birtur listi yfir tekjur rúmlega 3.725 Íslendinga. Könnunin byggist á álögðu útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Frjáls verslun áréttar að í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur.

Tekið er fram að um útvarsskyldar tekjur á árinu 2015 sé að ræða og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi.

„Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Jafnframt hafa margir tekið út séreignarsparnað en hann telst með í útsvarsskyldum tekjum,“ segir í tímaritinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert