Von er á um 10.000 Íslendingum á Stade de France annað kvöld þar sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun etja kappi við Frakka í átta liða úrslitum EM.
Margir hafa komið við á skrifstofu KSÍ í París til að sækja miða og þar leit mbl.is inn í dag og spjallaði við þau Guðlaug Gunnarsson og Margréti Elíasdóttur sem halda utan um miðasöluna fyrir KSÍ.
Þau eru, eins og aðrir Íslendingar, full tilhlökkunar fyrir leikinn annað kvöld og vonast til að sjá þriðja íslenska sigurinn í röð.
Guðlaugur segir að allt hafi gengið mjög vel og á von á því að á bilinu 8.000 til 10.000 Íslendingar verði á vellinum á morgun. Í dag verður opið á skrifstofu KSÍ (sjá nánari upplýsingar í tenglinum hér fyrir neðan) til klukkan 19 að staðartíma og á morgun verður opið til klukkan 16. Einnig verða miðar afhentir við leikvanginn ef á þarf að halda.
Guðlaugur og Margrét hvetja fólk til að mæta tímanlega á völlinn, ekki seinna en tveimur tímum fyrir leik.
„Fólk hefur verið alveg einstaklega jákvætt og skemmtilegt. Mér sýnist það hafa skilað sér út um allt,“ segir Guðlaugur.