„Mér fannst bara ekki ganga að ég, sem hafði talað svo mikið um nauðsyn mannúðar og samstöðu í kosningabaráttunni, gerði svo ekkert annað, sem nýkjörinn forseti, en að tala um strákana okkar og hvað allt væri frábært og yndislegt.“
Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, nýkosinn forseti Íslands, í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í hádeginu í dag spurður út í ummæli sem hann lét falla í frétt á vef Vísis fyrr í vikunni. Þar tjáði hann sig um mál tveggja ungra hælisleitenda frá Írak sem voru dregnir af lögreglu út úr Laugarneskirkju. Sagði hann þyngra en tárum tæki að mál þróuðust á þann veg að hælisleitendur fyndu sér skjól í kirkju og laganna verðir drægju þá síðan þaðan út.
Frétt mbl.is: Auðvelt að mála fjandann á vegginn
Hann sagðist hafa hugsað sig aðeins um áður en hann ákvað að svara spurningum um málið.
„Þessi mál verða í umræðunni áfram og sem forseti verð ég að gæta mín. Ég vil ekki þegja en ég verð líka að sýna því skilning að sjónarmið vegast hér á. Stjórnvöld og lögregla höfðu ákveðna afstöðu. Þau gátu borið við að þessir tilteknu hælisleitendur hefðu komið hingað frá Noregi og reglum samkvæmt bæri því að fara með þá þangað, þar sem þeir fengju meðferð sinna mála.
Hælisleitendurnir sjálfir og fólkið í kringum þá taldi víst að íslensk stjórnvöld ættu að leiða málið til lykta og þess vegna fór sem fór,“ sagði Guðni.
Þarna vógust á ólík sjónarmið.
„Mér fannst að það hefði mátt reyna að leita annarra leiða, en þá hefðu báðir þurft að gefa að vissu leyti eftir. Mun það gerast í framtíðinni? Kannski verður sá lærdómur dreginn af þessu atviki að það eigi að reyna í lengstu lög að koma í veg fyrir að mál verði til lykta leidd með þessum hætti, að hælisleitendur verði dregnir út úr kirkju,“ bætti Guðni við.
Þá þyrftu þeir í fyrsta lagi að fara ekki inn í kirkjuna og í öðru lagi þyrftu stjórnvöld að gefa þeim þá von að þeir þyrftu ekki að leita hælis í kirkju.