Það er EM-fár í Evrópu, það er EM-fár á Íslandi og það er Em-fár í París þar sem stórleikur Íslands gegn Frökkum fer fram í kvöld. Frakkar eru sérstaklega gestrisnir því þeir taka á vel á móti Íslendingum með íslensku sumarveðri - rigningu og fjórtán gráðum.
Íslenskir stuðningsmenn hafa fjölmennt í borginni í dag en búist er við um tíu þúsund Íslendingum á franska þjóðarleikvanginum í kvöld.
Eftirspurn eftir miðum á leikinn, treyjum og flugi til Frakklands hefur verið gríðarlega mikil og það hefur ýmislegt gengið á varðandi það síðastnefnda. Til dæmis varð leiguflugvél á vegum Vitaferða sem fljúga átti frá Keflavík til Parísar í gær að lenda í Amsterdam í Hollandi á miðnætti þar sem seinkun varð á fluginu vegna brunaviðvörunar í Leifsstöð í gær og ekki fékkst leyfi til lendingar í París.
Það er þó ekki hægt að segja annað en að stuðningsmenn íslenska landsliðsins séu vel gíraðir fyrir stórleik kvöldsins. Ísland gegn Frakklandi á Stade de France, og það mátti svo sannarlega sjá þegar stuðningsmenn Tólfunnar komu saman í París í gærkvöldi og skemmtu sér vel.
Það var einnig létt yfir leikmönnum og þjálfurum landsliðsins á blaðamannafundi sem fór fram í gær. Það eru allir fullir tilhlökkunar enda hátíð í bæ.