Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, segir það ekki hafa verið erfiða ákvörðun að láta af þingmennsku í haust.
„Þetta er búið að bærast innra með mér í nokkurn tíma. Ég hef skipt um vettvang reglulega í mínu lífi því ég vil ekki staðna. Þegar ákveðið var að stytta kjörtímabilið hugsaði ég með mér að þetta væri orðið gott,“ segir Vigdís, spurð út í ákvörðun sína.
Frétt mbl.is: Vigdís gefur ekki kost á sér
„Ég fór með flokkinn í hæstu hæðir í síðustu alþingiskosningum, þannig að ég hætti bara á toppnum.“
Hún kveðst ekki vita hvað tekur næst við hjá sér. „Ég hef alltaf haft það sem markmið að ljúka þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur og svo opnast oftast tuttugu nýjar dyr þegar ég loka einum,“ segir Vigdís.
„Þegar ég var nýsest inn á þing hafði ég klárað sex ára háskólanám á fimm árum og ég er búin að vera í fimmta gír í bráðum 14 ár, bæði í lögfræðináminu og þingmennskunni,“ bætir hún við og telur líklegt að hún muni nýta sér lögfræðinámið á næstu vígstöðvum.
Í yfirlýsingu sinni greindi Vigdís frá því að síðasta stóra verkefnið hennar væri að leiða fram staðreyndir um afhendingu tveggja stóru bankanna til kröfuhafa og upplýsa um vinnubrögð í kringum Landsbankann og Icesave. Upplýst verður um málin í lok sumars.
„Þetta er allt klárt. Ég og Guðlaugur Þór [Þórðarson varaformaður fjárlaganefndar] þurfum að finna rétta dagsetningu til að birta þetta. Þetta mál er mun stærra en Icesave 1,“ segir hún.