Flugumferðarstjórar felldu samninginn

Flugumferðarstjórar að störfum.
Flugumferðarstjórar að störfum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Flugumferðarstjórar hafa fellt nýgerðan kjarasamning sinn við Isavia. Kosningu félagsmanna í Félagi flugumferðarstjóra lauk á miðnætti.

60,2% þeirra sem kusu felldu samninginn en 39,8% samþykktu hann. Um níutíu prósent félagsmanna tóku þátt í atkvæðagreiðslunni.

Sigurjón Jónasson, formaður Félags flugumferðarstjóra, segir í samtali við mbl.is að stjórn félagsins fundi nú vegna málsins. Hann hafi ekki meira um málið að segja að svo stöddu.

Hann segir þó að félagið þurfi að mæta fyrir gerðardóm á miðvikudaginn og skila þá inn greinargerð. „Þannig að við þurfum væntanlega að vinna í henni.“ Gerðardómur hafi þegar tekið til starfa og vilji fá frá félaginu gögn. Það liggi á því að klára greinargerðina.

Samn­inga­nefnd­ir deiluaðila, flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia, skrifuðu und­ir kjara­samn­ing­inn í húsa­kynn­um rík­is­sátta­semj­ara fyrir rúmri viku, eft­ir löng og ströng funda­höld. Átti samn­ing­ur­inn að gilda til árs­loka 2018.

Var samningurinn kynntur félagsmönnum síðasta þriðjudag og í kjölfarið var kosið um hann. Lágu niðurstöðurnar fyrir í morgun.

Alþingi setti í síðasta mánuði lög á yfirvinnubann flugumferðarstjóra. Samkvæmt lögunum var gerðardómi gert að útkljá kjaradeiluna hefðu deiluaðilar ekki náð samningum fyrir 24. júní síðastliðinn. Skal gerðardómur þá ákveða kaup og kjör flugumferðarstjóra fyrir 18. júlí næstkomandi. Ákvarðanir gerðardóms skulu vera bindandi með sama hætti og um kjarasamning milli aðila væri að ræða og með gildistíma sem gerðardómur ákveður.




Flugumferðarstjórar á félagsfundi. Myndin er úr safni.
Flugumferðarstjórar á félagsfundi. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert