François Hollande Frakklandsforseti hunsaði ítrekaðar beiðnir öryggisvarða á Stade de France þjóðarleikvanginum í París um að yfirgefa völlinn eftir leik Íslands og Frakklands í 8 liða úrslitum EM í knattspyrnu. Hann kaus heldur að fylgjast með og dást að íslensku stuðningsmönnunum í stúkunni.
Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fráfarandi forseti Íslands, í viðtali við RÚV í kvöld, en Ólafur varð sjálfur vitni að þessu. „Frönsku áhorfendurnir voru nánast allir að yfirgefa völlinn en þarna stóð forseti Frakklands og dáðist að gleðinni. Stóð þarna og dáðist að Íslandi,“ sagði Ólafur Ragnar í samtali við RÚV.
Ólafur Ragnar sagði það ótrúlega gæfu að fá að ljúka forsetatíð sinni á því að taka þátt í þessari sögulegu þjóðargleði. Hann sagði að börnin sem hefðu mætt í kvöld og fylgst með landsliðinu á EM ættu eftir að muna eftir þessu magnaða afreki um ókomna tíð. „Eins og ég sagði við Lars og forystumenn KSÍ, þeir eru búnir að gefa þjóðinni dýrmæta gjöf sem mun endast okkur í áratugi og jafnvel lengur. Við getum ekki annað en hneigt okkur og þakkað.“
Að sögn Ólafs færði Ísland fótboltanum á heimsvísu þá gjöf með árangri sínum á mótinu að lítil þjóð gæti komið og gert sig gildandi á stórmóti af þessu tagi. „Ég fann á fulltrúum evrópska knattspyrnusambandsins að þeir töldu þetta skapa mikil tímamót því að margir yrðu að endurskoða margt í ljósi árangurs Íslendinga,“ sagði Ólafur.