Stöðva lagningu Kröflulínu 4

Landvernd fagnar ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Landvernd fagnar ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. mbl.is/Rax

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur stöðvað lagningu 220 kV háspennulínu í lofti um Leirhnjúkshraun. Landvernd og Fjöregg kærðu í maí sl. framkvæmdaleyfi Skútustaðahrepps til lagningar loftlínunnar Kröflulínu 4 frá Kröflu að Þeistareykjum.

Í yfirlýsingu frá Landvernd segjast samtökin fagna ákvörðun úrskurðarnefndarinnar. „Framkvæmdir eru óheimilar á meðan nefndin tekur kæru Landverndar og Fjöreggs í Mývatnssveit á framkvæmdaleyfi línunnar til efnislegrar meðferðar,“ segir í yfirlýsingunni.

Segja samtökin niðurstöðu nefndarinnar fela í sér mikilvæga viðurkenningu á stöðu náttúruverndarsvæða gagnvart framkvæmdum. „Þ.m.t. svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum,“ segir í yfirlýsingunni.

Kæra samtakanna byggist á því að Leirhnjúkshraun nýtur sérstakrar verndar sem eldhraun skv. náttúruverndarlögum. Byggðu samtökin einnig á því að friðlýsa eigi hraunið skv. lögum um verndun Mývatns og Laxár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka