Góð spretta í víðfrægum berjalöndum

Einstaklega góðar horfur eru í berjamálum í ár. Veður var gott í vor og í byrjun sumars en veðurfarið ræður jú mestu hvað varðar berjasprettu. „Það er margt sem spilar inn í berjasprettuna og það er náttúrlega hitinn, rakinn og úrkoman en enginn einn þáttur skiptir eins miklu og hitastigið í maí,“ segir Sveinn Rúnar Hauksson, lækn­ir og áhugamaður um berjatínslu, í samtali við mbl.is.

Hann segir engum blöðum um það að fletta að hitamet hafi verið slegið í maímánuði auk þess sem júnímánuður var mildur um mest allt land.

„Við höfum alveg leyfi til þess að vona og bara búast við mjög góðu berjaári um land allt,“ segir Sveinn en þó sé dálítið snemmt að spá nákvæmlega fyrir um horfurnar, ennþá geti ýmislegt spilað inn í. 

Vestfirðir, Norðurland og Austfirðir þykja einkar góð berjalönd, þó ber megi finna alls staðar um landið, en þar hefur spretta brugðist síðustu árin. „En núna hefur blíðan verið allsráðandi þarna og ég er að vona að nú verði á ný mikil spretta í þessum víðfrægu berjalöndum,“ útskýrir Sveinn.

Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður félagsins Ísland-Palestína og áhuguamaður um …
Sveinn Rúnar Hauksson læknir, formaður félagsins Ísland-Palestína og áhuguamaður um berjatínslu. /frikki

Yfirleitt er berjatíðin best er nær dregur hausti en Sveinn minnist þess þó að stundum hafi verið hægt að hefja tínslu fyrir mánaðamót ágúst. „Ég man eftir deginum 25. júlí í Bjarnagili í Fljótum,“ segir Sveinn en þá tókst vini hans sem þar býr að færa konu sinni aðalbláber í morgunmat. Þetta var nú fyrir nokkrum árum en trúir Sveinn að þetta verði líka möguleiki í ár.

„Það á við um bláberin og um aðalbláberin,“ segir Sveinn en telur að krækiberin þurfi þó aðeins lengri tíma. „Ég mundi nú bíða með þau en ekki of lengi samt, maður vill ekki lenda í því að hafa gleymt að tína krækiberin,“ en hann lenti í því í fyrra að verða uppiskroppa með krækiber og átti því ekki í hrásaftina. Sveinn hvetur fólk til að njóta þess að handtína berin framan af en nota berjatínu frekar þegar á líður haustið til að bjarga verðmætunum frá næturfrosti.

Hann ráðleggur þeim sem leggja leið sína út úr bænum er nálgast mánaðamót að hafa ávallt meðferðis ílát undir ber. „Það er nú alltaf hægt að finna ber. En núna á ég von á því að það þurfi nánast lítið að hafa fyrir því, það verður mikið um ber víðast hvar,“ segir Sveinn en minnir á að ekki þurfi endilega að leita langt út fyrir höfuðborgina til að finna ber. Til að mynda er stutt upp að Esjurótum, að Tröllafossi nú eða í Hafnarfjarðarhraun og í Elliðaárdal. Þá er stutt að fara að Þingvöllum, í Grímsnesið og í Grafninginn.

Sveinn Rúnar segir krækiberin þurfa ögn lengri tíma en bláberin …
Sveinn Rúnar segir krækiberin þurfa ögn lengri tíma en bláberin til að þroskast. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert