Hálendisvakt Landsbjargar er hafin og hafa björgunarsveitarmenn tekið sér stöðu á miðhálendi Íslands til að leiðbeina og aðstoða ferðamenn.
„Það er búið að ganga vel, okkar fólk kom á svæðið að kvöldi föstudags og hefur verið að koma sér fyrir,“ segir Kristín Hulda Bjarnadóttir hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Hún segir stöðuga vakt á þremur stöðum á hálendinu; í Drekagili við Öskju, í Nýjadal á Sprengisandsleiðinni og í Landmannalaugum, en þaðan geta björgunarsveitarmenn síðan farið til að sinna útköllum á sínu vaktsvæði. Hálendisvaktin er virk frá byrjun júlí til ágústloka, þegar ferðamannastraumur á hálendinu er sem mestur, að því er fram kemur í umfjöllun um þessa þjónustu í Morgunblaðinu í dag.