Mörg hundruð hjóla inn í kvöldið

Fjölmargir tóku þátt í keppninni í fyrra.
Fjölmargir tóku þátt í keppninni í fyrra. Mynd/KIA Gullhringurinn

Rúmlega átta hundruð hjólreiðamenn eru skráðir í hjólreiðakeppnina Kia-gullhringinn sem fer fram á laugardaginn. Lagt er af stað frá Laugarvatni og hjólað um margar náttúruperlur Íslands ásamt þekktum söguslóðum þjóðarinnar. María Ögn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri keppninnar, segir mikilvægt að keppendur nærist rétt og klæði sig eftir veðri.

Skráningu lýkur í kvöld og hefur keppnin aldrei verið fjölmennari. Þetta er í fimmta skipti sem hún er haldin og verða um hundrað fleiri keppendur en í fyrra. Hægt er að skrá sig til miðnættis í kvöld en eftir það hækkar verðið úr 8.000 kr í 17.000 kr.

Þrjár vegalengdir eru í boði; 48 km, 65 km og 106 km. Millivegalengdin, B-flokkur, er vinsælust en um sex hundruð manns stefna á að ljúka þeirri vegalengd. Um hundrað manns ætla að hjóla lengstu vegalengdina og svipað margir ætla að ljúka 48 kílómetrum.

Mynd/KIA Gullhringurinn

María Ögn segir að veðurspáin fyrir laugardaginn sé mjög góð, logn og fjórtán gráður. „Eins og staðan er í dag verður þetta alveg geggjað veður. Hjólapartís-veður. Gleðin verður svolítið meiri þegar veðrið er gott,“ segir hún.

Mikilvægt að hafa ekki bara vatn í brúsanum

Þátttakendur eru á mörgum og mismunandi getustigum. Sumir eru að taka þátt í hjólakeppni í fyrsta skipti en aðrir eru fremstir í sínum flokki á landsvísu. „Það eru alltaf einhverjir sem vinna keppnina á tíma en það eru svo ótrúlega margir sigrar í svona keppni og markmið fólks eru svo ótrúlega ólík,“ segir María Ögn.

Hún hefur skipulagt ýmsa viðburði sem tengjast hjólreiðum síðustu ár ásamt því að hafa þjálfað fólk í hjólreiðum. „Ég hef verið að hvetja fólk til að ná sínum markmiðum í keppninni. Fyrsta sætið í heildinni er ekki aðalmálið,“ segir hún.

Mikilvægt er að klæða sig eftir veðri og næra sig vel í keppninni. Gangi spá laugardagsins eftir verður gott veður og þá er ekki gott að klæða sig of vel. Þá er einnig nauðsynlegt að vera ekki aðeins með vatn í brúsanum.

Mynd/KIA Gullhringurinn

„Maður á að drekka vatn allan daginn en þegar maður fer í átök á maður að vera með steinefni eða drykki sem endurnýja það sem þú tapar á meðan þú reynir á þig. Það eru helstu mistökin sem fólk gerir,“ segir María Ögn. Þá er skylda að vera með hjálm í keppninni.

Hjóla inn í kvöldið 

Þau sem fara lengstu vegalengdina hefja keppni kl. 18 á laugardaginn. Eftir það verður fjölmennasti hópurinn ræstur.  „Til þess að öllum líði nú vel, af því að fólk er misvant því að hjóla í hóp og fólk er einmitt á öllum getustigum, ræsum við þennan fjölda í nokkrum hollum. Allir eru með flögu þannig að flögutíminn gildir,“ segir María Ögn.

Þátttakendur verða beðnir að koma sér fyrir í svokölluðum tímahólfum eftir getu og miða þannig við þann tíma sem þeir telja að líði áður en þeir koma í mark. „Þannig ert þú með fólk í kringum þig sem er um það bil á þínum hraða. Þá ætti öllum að líða vel, þá verður ekki eins mikið kraðak og ekki jafnmikil hætta á slysum,“ segir hún. Gert er ráð fyrir að þátttakendur komi í mark á bilinu kl. 20 til 21.30 um kvöldið.

Allir þátttakendur fá veglega þátttökupakka og geta farið í Fontana eða í sund í sundlauginni eftir keppni. Yasmin Olsen mun standa við grillið og grilla mat frá Holtakjúklingi fyrir svanga keppendur og DJ Margeir þeytir skífum fram á kvöld. Þá eru einnig vegleg útdráttarverðlaun.

Mynd/KIA Gullhringurinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert