Verslunin Kostur hefur fengið mörg skilaboð og tölvupósta undanfarna viku frá viðskiptavinum sem segjast ætla að sniðganga verslunina hér eftir þar sem verslunin hefur auglýst á Útvarpi Sögu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort hætt verði að auglýsa þar.
Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Kosts.
„Á Íslandi er tjáningarfrelsi og við verðum að treysta því að fólk hafi dómgreind til að greina mun á réttu og röngu en það er algerlega á móti okkar skoðunum og stefnu að ala á hatri eða ótta við minnihlutahópa (eða nokkra manneskju),“ segir í færslunni.
Núverandi auglýsingasamningur við Útvarp Sögu gildir til 15. júlí. Ekkert hefur verið ákveðið með framhaldið.