Milljarðamunur á virkjunum

Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum …
Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Rax

Samorka fullyrðir að tugmilljarða króna munur geti verið á kostnaði við uppbyggingu og rekstur virkjanakosta sem eru til umfjöllunar í þriðja áfanga rammaáætlunar. Af tólf hagkvæmustu kostunum séu tveir í nýtingarflokki og fjórir í biðflokki. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Samorka hefur látið vinna um hagkvæmni ólíkra virkjanakosta.

Virkjunarkostir landsmanna eru sagðir fjölmargir með mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, orkuvinnslugetu, nýtingu og fleira í tilkynningu frá Samorku sem eru samtök orku- og veitufyrirtækja. Vatnsaflsvirkjanir hafi almennt verið ódýrari í stofnkostnaði á hvert uppsett megavatt (MW) en á móti hafi jarðhitavirkjanir skilað hærri nýtingu. Flókið geti verið að leggja mat á hagkvæmni þegar um ólíka kosti er að ræða.

Í tilkynningu samtakanna segir að skýrslan sýni að kostnaðarmunurinn geti numið tugum, jafnvel yfir hundrað milljörðum króna, á samanlögðum stofnkostnaði við virkjanakosti í núgildandi nýtingarflokki annars vegar og ef valdir væru hagkvæmustu kostirnir hins vegar.

Hún sýni einnig að árlegur kostnaður við orkuframleiðslu sé mörgum milljörðum króna meiri við kosti í núverandi orkunýtingarflokki en við hagkvæmustu uppröðun.

„Að sjálfsögðu koma fleiri sjónarmið en hagkvæmni virkjanakosta við sögu við röðun virkjunarkosta. Samorka ítrekar hins vegar áherslu á mikilvægi þess að jafnframt verði horft til hagkvæmni, sem og efnahags- og samfélagslegra áhrifa við röðun virkjunarkosta,“ segir í tilkynningu Samorku.

Aðferðafræðin sem notast var við í skýrslunni kallast LCOE, sem stendur fyrir „Levelized Cost of Energy“. Hún er sögð vel þekkt á alþjóðavettvangi í skýrslum um orkumál þó að ekki hafi hún verið notuð hingað til hér á landi. Með LCOE sé hægt að nota „sömu mælistiku“ í samanburði ólíkra virkjunarkosta. Kristján B. Ólafsson rekstrarhagfræðingur vann skýrsluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert