Mennta- og menningarmálaráðuneytið kannast ekki við að meistararitgerð sem Freyja Gunnlaugsdóttir, klarínettleikari og aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, skrifaði í stjórnun og stefnumótun við viðskiptafræðideild HÍ sé notuð sem vegvísir ráðuneytisins að uppbyggingu framhaldsmenntunar í tónlist. Þessu hélt Tryggvi M. Baldvinsson, deildarforseti tónlistardeildar Listaháskóla Íslands, fram í færslu sem birt var á vefsíðu skólans í gær.
Sigríður Hallgrímsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, segir í samtali við mbl.is að starfsmenn ráðuneytisins kannist ekki við að ritgerðin hafi neitt verið notuð í vinnu við framkvæmd útboðs á nýjum framhaldsskóla í listum. Segir hún ákvörðunina koma til vegna ákvörðunar meirihluta Reykjavíkurborgar að draga verulega úr fjárstuðningi við framhaldsnám í tónlist þótt lagaleg ábyrgð námsins sé alfarið á þeirra höndum.
Í færslunni sem Tryggvi birti í gær voru gerðar alvarlegar athugasemdir við meistararitgerð Freyju, en Tryggvi sagði ástæðu skrifa sinna vera tenginguna við ráðuneytið. „Erfitt er að koma í veg fyrir að órökstuddar fullyrðingar rati inn í meistararitgerðir og í sjálfu sér er það ekki kveikjan að þessari athugasemd, en þar sem þessi gallaða ritgerð virðist vera orðin að vegvísi mennta- og menningarmálaráðuneytis að uppbyggingu framhaldsmenntunar í tónlist er ekki hægt að láta hjá líða að gera athugasemdir við nokkur atriði sem þar koma fram,“ segir í færslu hans.
Samkvæmt Sigríði á þess tenging sér enga stoð í raunveruleikanum og segir hún ritgerðina ekki hafa verið notaða í þessa vinnu.