Finnskum göngumanni bjargað

Map.is kort
Map.is kort Map.is

Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði finnskum göngumanni sem sendi út neyðarboð frá Ófeigsfjarðarheiði um klukkan eitt í dag. Hann var orðinn blautur og kaldur þegar hann fannst en heill á húfi. Alls voru sextán björgunarsveitir af öllu Vesturlandi auk þyrlunnar kallaðar út.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 12:25 í dag stafrænt neyðarkall í gegnum gervihnött. Sendirinn er skráður í Finnlandi en ljóst var þá þegar að handhafi sendisins var staddur á heiðinni vestur af Djúpavík, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Strax var haft samband við björgunarmiðstöð í Finnlandi sem fljótlega gat sent upplýsingar um eiganda sendisins. 

Rétt fyrir klukkan 13:00 í dag voru björgunarsveitir á Hólmavík, Drangsnesi og í Árneshreppi kallaðar út vegna neyðarkallsins, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar. Rétt rúmlega hálftvö fóru fyrstu bílar björgunarsveita af stað. Klukkan rúmlega tvö voru björgunarsveitir úr Borgarfirði, Akranesi og Húnavatnssýslum einnig kallaðar út til að taka þátt í leitinni og svo bættust við sveitir af Snæfellsnesinu. Í heildina voru kallaðar út sextán sveitir.

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir að aðstæður til leitar hafi verið mjög slæmar og útlit fyrir að björgunarsveitir yrðu að fara fótgangandi á vettvang. Vatnavextir voru umtalsverðir, mikil rigning og vegurinn í Kaldbaksvík á Ströndum farinn í sundur sem hefti alla umferð norður á svæðið.

Rúmlega hálfþrjú var TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar, komin á svæðið. Heyrði áhöfn þyrlunnar í neyðarsendinum og tókst henni að að fikra sig á punktinn þar sem staðsetning sendisins var. Aðstæður á vettvangi voru mjög erfiðar en um klukkan þrjú hafði þyrlunni tekist að lenda á svæðinu og bjarga þeim nauðstadda um borð. Var hann heill á húfi en kaldur og hrakinn. Mun þyrlan fljúga með manninn til byggða þar sem hann mun gangast undir frekari læknisskoðun.

Frétt mbl.is: Neyðarboð frá Ófeigsfjarðarheiði

TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni.
TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar. Myndin er úr safni. mynd/Landhelgisgæslan
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka