Undarlegar bilanir á vélum og óvæntar fyrirstöður á klöpp hafa sett jarðborun á bænum Ríp í Hegranesi í Skagafirði í uppnám.
Talið er að skýringar á þessu séu í öðru tilverustigi, en í Hegranesinu eru þekktar álfabyggðir. Gengur fólk á svæðinu ekki að því gruflandi og tekur fullt tillit til nágranna sinna. Ef ekki, þá vandast málin.
„Mér var bent á að okkur hefði láðst að sækja um leyfi bæði hjá huldufólki og framliðnum,“ sagði Halldór Gunnlaugsson á Ríp. Bormenn sem verið hafa á staðnum leita nú tækja til að losa um borstangir sem eru fastar í jörðu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.