Þýski hótelmógúllinn Klaus Ortlieb hefur unnið í hótelbransanum í meira en þrjátíu ár. Meðal þeirra hótela sem hann hefur sett á fót og rekið eru meðal annars hin víðfrægu Claridge's í London, Cooper Square, The Mercer, Gotham hotels og fleiri í New York og Hotel Modern í New Orleans.
Ortlieb kynntist Íslandi sem táningur og hefur alltaf borið sterkar taugar til lands og þjóðar. Fyrir um fjórum árum opnaði hann hótelið Hlemmur Square við Hlemm í byggingu frá 1930 sem meðal annars hýsti náttúrugripasafn Íslands. Greinar um hótelið hafa birst í víðfrægum tímaritum eins og Vogue og Condé Nast Traveller.
Hann segist vera spenntur fyrir þeim breytingum sem hafa orðið á hverfinu í kringum Hlemm á undanförnum árum og nefnir meðal annars fyrirhugaðan matarmarkað á Hlemmi sem verður opnaður með haustinu.
Spurður hvað honum finnst um öll þau nýju hótel sem er verið að reisa í miðborg Reykjavíkur til að mæta auknu ferðamannaflæði til landsins finnst honum yfirvöld vera mjög skammsýn í þeim málum. „Fjölgun ferðamanna til landsins hefur verið ótrúleg og í stöðugum uppgangi. En sá tími mun koma að draga mun úr þessu flæði. Ísland getur ekki verið einn vinsælasti ferðamannastaður heims árum saman. Mér finnst ríkja mikil skammsýni í því að reisa endalausar nýjar hótelbyggingar í miðborginni og finnst að allir séu að reyna að græða. Eftir tíu ár verður Reykjavík uppfull af tómum hótelum. Ég er mjög hræddur um það. Ísland ætti að taka skref til baka og halda áfram að vera eins og það er. Þið verðið að muna hvað það er sem laðar ferðamenn til landsins. Fólk kemur hingað vegna náttúrunnar, og vegna þess að Reykjavik er öðruvísi, það vill sjá upprunalegu, skrýtnu, skemmtilegu hliðarnar á borginni.“
Ortlieb segist óttast að einn góðan veðurdag detti einhverjum í hug að byggja risastóran rússíbana og Disneyland rétt fyrir utan Reykjavík. „Mér sýnist allt benda í þá átt. Borgaryfirvöld virðast ekki vera að reyna að halda í það sem laðaði ferðamenn hingað til að byrja með. Ég segi þetta vegna þess að mér þykir afskaplega vænt um þessa borg og um þetta land. Ísland er orðið hluti af lífi mínu og þetta er mín sannfæring.“
Ítarlegt viðtal við Klaus Ortlieb má lesa á enska vef Mbl.is, Iceland Monitor, HÉR.